Efnisyfirlit

Radio Rafauga

móralíseringar

Ingólfur Gíslason


Skjábjört
Radio Rafauga

© Ingólfur Gíslason
Kápa: Magga & Lommi
Umbrot: Lommi

Skjábjört, Reykjavík 2014

Þessa bók má gjarnan afrita með ýmsum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun, eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, með eftirfarandi skilyrðum: 1. Efnið sé ekki nýtt til að valda manneskjum skaða, græða peninga, eða til að stuðla að auknum ójöfnuði milli fólks. 2. Upprunans sé getið.

Í þessari bók eru útvarpspistlar fluttir á árunum 2004–2005.
Efnið er sígilt, viskan óumdeild.

I. Bloggvarpið

Tveir þættir sendir út í þáttaröðinni Sögumenn samtímans sumarið 2004.

Fyrsta útsending

Góðir hlustendur, áður en lengra er haldið bið ég ykkur um að ná í óátekna hljóðsnældu til að taka upp þáttinn. Setjið hana í tækið og ýtið á REC. Spilið þáttinn fyrir svefninn á hverju kvöldi til að tryggja góðar draumfarir. Við ætlum að fara í ferðalag. Við ætlum að nota ímyndunaraflið. Til að nálgast rétta hugarfarið ætlum við nú að skipta yfir á langbylgju.

Gott kvöld, góðir hlustendur, Útvarp rafauga hefur útsendingu sína. Góðir hlustendur, opnið símaskrána og finnið kaflann um viðbrögð við kjarnorkuvá. Nei, það er sama hvað þið flettið, þið finnið hann ekki. Við eigum ekki von á neinum sprengjum. Hallið ykkur bara aftur og hugsið um sprengjur í fjarlægum ríkjum, fáið ykkur saltstangir og kaldan bjór, við höfum nú samband við fréttaritara vorn í Írak.

(HLJÓÐ Í BAKGRUNNI: Sprengjur og flugeldar (áramót í Reykjavík))

Við erum stödd hérna í beinni útsendingu í sprengjuregni í boði Bandaríkjahers. Það eru brúðkaup hérna út um allt og allt að verða vitlaust! Gamlárskvöldin heima eru ekki nærri því eins flott! Hér fylgja hvellunum alvöru afleiðingar, ekki bara skraut og litaðar skúrir. Hér er eins gott að passa sig að verða ekki viðskila við útlimi sína, hér er alvöru lífsháski, tilvalinn fyrir ljóðskáld í leit að áhættu. (HLJÓÐ: BÚM!) Vó, þetta var nú ekkert smá, bíðið aðeins, hlustendur góðir, á meðan ég leita að vinstri fætinum, hann getur ekki verið langt undan. Bíðið aðeins…

LAG: Praise the Lord and Pass the Ammunition (2:34)

Dauðinn sækir okkur öll. Sumir þurfa ekkert að hugsa um það hvað þeir eigi að gera í millitíðinni. Reyna kannski að vera sem mest í golfi eða á skrifstofunni eða í faðmi fjölskyldunnar. Sumir líta meira að segja á lífið sem eins konar stutta strætóferð og þeir telja sig hafa skiptimiða inn í eilífðina. Hvað sem því líður þá hafa endalok lífsins verið mönnum hugleikin frá ómunatíð og eru enn. Þetta situr greinilega djúpt í okkur. Börn byrja snemma að leika sér að því að deyja og ekki síður að drepa. Börn gera sem sagt töluvert af því að máta sig við dauðann. Og leikfangabyssur seljast vel, líka fyrir jól. Ég man enn eftir því þegar ég eignaðist fyrstu byssuna mína. Þá er ég auðvitað að tala um leikfangabyssu. Mér tókst að væla hana út í dótabúð af friðelskandi móður sem vildi ekki gefa börnum sínum vopn. Þangað til hafði ég reyndar notast við sviðakjamma, en amma mín hélt því nú alltaf fram að þeir væru kindur eða kýr, ég man ekki hvort. En hún var með höfuðið fullt af gömlum táknum, hún kunni aðra og eldri táknfræði en börn sem alin eru á bíómyndatímum.

Þegar ég heyri að einhver eða einhverjir hafi dáið sem ég þekki ekki náið, þá fer um mig straumur. Þetta er eitthvað sem tekur aðeins örbrot úr sekúndu og fer fram einhvers staðar á bak við tjöldin. En þetta eru einhver skilaboð eða nánast eins og ómeðvituð hugsun sem fer einn hring eftir taugakerfinu. Og þegar ég hugsa um þetta þá er ég viss um að boðin eru einhvern veginn svona: „Hjúkk að þetta var ekki ég.“ Eða, þegar betur er að gáð, þá er um að ræða tvöföld skilaboð, eins og svo algengt er: Innsta lagið segir „hjúkk að þetta var ekki ég“ en ytra lagið segir „hjúkk að þetta var ekki neinn mér nákominn.“ Næsta hugsun sem hríslast um mann er svo: Gæti þetta komið fyrir mig? Er ég í hættu staddur? Á ég að hætta að reykja? Keyra hægar? Halda mig frá austurlöndum? Maður mátar sig alltaf við dauðann, hvernig færi það mér að deyja úr bráðalungnabólgu eða í hræðilegu hryðjuverki? Misjafnlega hafa menn tekið lokum lífs. Sókrates heimspekingur tók dauða sínum karlmannlega – allt of karlmannlega segja sumir. Hann drakk sitt eitur og hafnaði því að flýja úr fangelsinu. Hann dó með reisn, hann dó virðulega; hann tók dauða sínum af dásamlegu æðruleysi. Við heyrum annað eins. Enn eru menn og konur að deyja af óaðfinnanlegri smekkvísi. En er það einlægt? Er ekki líka eitthvað að dá við dauðastríð?

Að berjast á brúninni og gefa ekki eftir fyrr en síðasta stráið slitnar. Að halda reisn og virðingu í dauðastríði: Dásamlegt æðruleysi eða óþolandi feik?

En hvað er að segja um þá sem dæma sig sjálfa til dauða? Sjálfsmorð. Það má varla minnast á það. Sjálfsmorð eru nefnilega smitandi. Það er kallað Werther-heilkennið, eftir sjálfsmorðsöldu sem reið yfir meðal ungra rómantískra manna á 18. öld. Þeir vildu herma eftir Werther hinum unga, persónu í sögu eftir þýska skáldið Goethe. Það mun líka hafa verið tíska á ákveðnu tímabili í ríki Rómverja. Þótti glæsilegt skemmtiefni. Sagt er að skáld nokkurt hafi safnað til sín vinum, farið í bað og skorið á æðar sínar. Og hélt svo gestum uppi á léttu spjalli, bauð upp á snittur og léttvín. Á meðan blæddi honum út, hægt og rólega.

Í dag erum við á móti sjálfsmorðum, við viljum helst ekki að fólk sé að deyja.

LAG: Geto Boys – I Just Wanna Die (4:04)

Opnaðu símaskrána og finndu kaflann um viðbrögð við kjarnorkuvá. Nei, það er sama hvað þú flettir, þú finnur hann ekki. Við eigum ekki lengur von á neinum sprengjum. Þessi kafli, sem var í símaskránni allt til ársins ég veit ekki hvenær, er horfinn. Hallið ykkur bara aftur og hugsið um sjúkdómana í Afríku og Hong Kong, byssukúlur glæpamanna í amerískum stórborgum og sprengjur í Mið-Austurlöndum. Farið í ísskápinn og finnið kókið.

Dauðinn er nefnilega skemmtiatriði. Hér áður fyrr voru ungir drengir sendir yfir heiðar til að ná í nokkra potta af brennivíni fyrir jólin. Það var töluvert hættuspil, jafnvel hættulegra en að keyra bíl úti á þjóðvegum Íslands nú á dögum. Og er það þó ekki hættulaust, en flestir bílstjórar óttast ekki dauðann heldur gefa glaðir í; dauðinn er bara fyrir gamalmenni og börn á öðrum hnöttum. En það henti sem sé oft og hendir víst enn að vegfarendur lenda utan slóðar, villast í þokunni eða sofna í vitlausu tjaldi. Og gilin kalla, það eru dauðadjúpar sprungur sem hljóða og kalla á fleiri lík. Og allir hafa heyrt um þessa umferðarstatistík. Hvað eru margir látnir í umferðinni í ár? Við erum að minnsta kosti að telja, en suður í Írak er ekki verið að telja. Og ef það er hart að vera bara tala á blaði, rafeind í reikniriti, dropi í tölfræði, hvað er þá það að komast ekki einu sinni á blað? Bandaríkjaher heldur ekki skrá yfir fallna andstæðinga, þeir reyna ekki einu sinni að giska. Og andstæðingarnir, hverjir eru þeir? Morðóðir múslimar með blóð á vör? Brúðhjón á leið í brúðkaupsþáttinn Já? Sofandi börn? Hver einasta manneskja sem deyr átti sér líf og sögu. En það er ekki gott PR, eða almannatengsl eins og það heitir á íslensku, að nefna tölur – þær eru eitthvað svo raunverulegar. Jafnvel þó að þær séu það ekki, eins og við fylgdumst með, eftir árásirnar á turnana tvo. Þá fór fram nánast sjúkleg leit að tölum. Hversu margir fórust? 50.000, 20.000, 10.000, 5000, en nú eru menn loks að sættast á svona 2800. Ég bíð enn eftir fyrstu tölum frá Írak.

LAG: Billie Holiday – Strange Fruit (3:06)

Við skulum þerra tárin, við skulum ekki sökkva niður í tilfinningaklám. Við skulum horfa á staðreyndir, og staðreyndin er sú að bensínlítraverðið hækkar og það er endalaus eftirspurn eftir dauða. Sem maður ekur eftir þjóðveginum, yfir Steingrímsfjarðarheiði eða einhvers staðar annars staðar, er fólk að deyja okkur til dýrðar, til að við getum keypt ódýrara bensín, svo við komumst yfir heiðar, í sumarbústaðinn, grill og golf.

Er ég að reyna að breiða út samviskubit meðal saklausra hlustenda? Já, það er nákvæmlega það sem ég ætla mér að gera. Ég er að vonast til að þér fipist við golfsveifluna, að lambakjötið brenni aðeins við, að þér svelgist aðeins á hvítvíninu og það renni ekki jafn ljúflega niður. En ég get talað og talað, það breytir engu. Tárin streyma og blóðið líka. Ræður eru haldnar, menn syngja sorgleg lög, skrifa háðsádeilur þar sem manni sýnist að búið sé að leiða endanlega í ljós hvað stríð eru fáránleg og vond, en alltaf kviknar hún aftur, stríðsgreddan. Hún birtist manni í bíómyndum þar sem vondir menn eru sallaðir niður af góðum dátum, en hún kemur ekki síður fram í myndum í morgunblöðum, skýringarmyndum af háþróuðum vopnum nútímans. Hafiði séð nýju flaugarnar, vídeóstýrðar með nætursjón? Mann langar næstum því að panta eina sjálfur, til að hafa í sumarbústaðnum eða á toppgrindinni á jeppanum.

Hversu mörg ársverk eru unnin í þágu hernaðar í heiminum á hverju ári? Við erum að tala um afkomu bæjarfélaga úti um allan heim og meira að segja á Íslandi. Við viljum halda okkar fjórum óvopnuðu orrustuþotum – og reyndar er það kannski ágætt, þær eru þá ekki að þvælast í brúðkaupum sem koma þeim ekki við á meðan. Nei, milljónir manna hafa atvinnu af hernaði með einhverjum hætti. Það þarf að búa til sprengjur, það þarf að smíða flugvélar og jeppa, það þarf að kenna á tækin, það þarf að nota þau. Og það þarf að sinna kynferðislegum löngunum hermanna.

Hversu mörgum krónum eyðir mannkynið í eyðileggingu árlega? Ég veit það ekki, talan er svo há að hún kemst ekki fyrir í höfðinu á mér, það eru ekki til orð yfir svo háar tölur. Ég veit það bara að bandaríski herinn fær um það bil fjögurhundruð milljarða dollara á fjárlögum þessa árs. Það samsvarar um það bil þrjátíu þúsund milljörðum íslenskra króna. Á íslensku er hægt að segja að þetta séu þrjátíu billjónir, en í Bandaríkjunum sjálfum mundi maður segja þrjátíu trilljónir. Á dönsku mundi maður kannski segja: Det er da også en slags penge . Hvað mundi maður gera ef maður ætti allt í einu svona upphæð á tékkareikningnum? Fara í stríð? Já, það virðist vera endalaus eftirspurn eftir dauða um allan heim og þar sem er eftirspurn er auðvitað líka framboð.

En hvað er það sem rekur okkur áfram í þessu kapphlaupi? Er það bensínlítraverð eða einhvers konar gredda sem rekur okkur áfram? Er það umhyggja fyrir fólkinu á Suðurnesjum allra landa? Það er alltaf eitthvað. Kannski er raunverulega ástæðan, eins og ég hef nefnt, einhver innbyggð stríðsgredda. Hvað sem líður sögulegum skýringum og stjórnmálagreiningu. Stjórnmálaforingjar í vanda hafa löngum vitað að alltaf er eins og lyftist aðeins brúnin á fólkinu þegar þjóðin fer í stríð. En við Íslendingar þekkjum það nú ekki alveg af eigin raun, og þó er ég viss um að skyldar tilfinningar hafi kviknað í brjóstum okkar þegar þorskastríðið var og hét.

En hvað, en hvað, ekki getur maður alltaf verið að taka dauða ókunnugra inn á sig, fólks sem maður þekkir ekki neitt. Maður gerði ekkert annað en að gráta alla daga, frá morgni til kvölds, og jafnvel á næturnar líka. Nei, ég hvorki held því fram að ég eigi sjálfur í erfiðleikum með að gleyma öllum hörmungum heimsins, né því að hlustendur setji upp sorgarsvip við grillin á sólpöllunum í kvöld. En ég minni á að það er verið að drepa fólk með okkar blessun og samþykki . Blessun ríkisstjórnarinnar, hvað sem öðru kann að líða og hvað sem þjóðinni finnst. Ég vil biðja fólk um að hugleiða það meðan það stangar lambakjötið úr tönnunum í kvöld. Góðar stundir.

LAG: Beasts of Bourbon – Rest in Peace (3:13)

Svartsýnisvarpið

Góðir hlustendur, fyrst þegar ilmurinn af nýbökuðu brauði liðast um íbúðina mætir listamaðurinn, oftar en ekki fullur og með dónaskap. Svo, þegar hann er dauður, getum við farið að tala um hvað hann hafi nú verið ljómandi skemmtilegur, sérstaklega með víni.

Ég hitti hann stundum á barnum, helvíti skemmtilegur náungi, verst hvað hann fór illa á drykkjunni.

Góðir hlustendur, litla, gula hænan fann fræ.
Það var hveitifræ.

Afganginn af sögunni þekkja flestir. Litla gula hænan þurfti sjálf að sá fræinu, slá það, þreskja og mala. Þau hjálpuðu ekki einu sinni til við baksturinn, svínið, hundurinn og kötturinn. Og hænan át brauðið ein. En hvað voru þau hin eiginlega að gera á meðan hænan stritaði? Voru þau að drekka og dópa undir húsvegg? Horfa á sjónvarpið? Eða voru þau kannski að mála myndir, yrkja ljóð, semja sönglög?

Við sjáum nú hænuna fyrir okkur, hún situr ein til borðs, og það er dúkalagt og smekklegt. Í fjarska heyrum við svínið syngja lög við ljóð kattarins og hundurinn spilar undir á gítar. Þau þrjú hafa kveikt sér bál og skemmta sér saman þótt þau séu svöng. Litla gula hænan étur sig sadda, en hendir helmingnum af brauðinu í ruslið. Svo reynir hún að sofna þótt hún eigi dálítið erfitt með það fyrir látunum í tríóinu. Að ekki sé minnst á bólgna vöðva, kvíða og magasýrur.

Við kveðjum nú Latabæ með nýjustu upplýsingum, sem eru þær að letidýrin eru nú komin á feitan plötusamning og munu sennilega leika í sjónvarpsþáttum sem nást í hverjum einasta smábæ í Texas. Við færum okkur hægt og rólega nær raunverulegu inntaki þáttarins, sem er að bráðum kemur hrímkalt haust og börnin fara í skólann á nánast hverjum degi og töluvert margir fullorðnir líka. Þar rembist fólk og reynir að verða samkeppnishæfara vinnuafl ef maður á að trúa lykilmönnum. Huga þarf að vetrardekkjum og líkamsræktarkortum. Bráðum verður of kalt til að spila golf. Og það fer að verða viðeigandi að minna á að þátturinn er í boði íslenskra lyfjarisa og þriðjaheimsþræla.

Góðir hlustendur, það er nóg til af brauði og mörgum snúðum er hent á haugana. Við ættum sennilega að leggja meiri áherslu á lög og ljóð og fagrar myndir.

Og nú ætla ég að gera hlé á máli mínu vegna eftirfarandi skilaboða:

Framhaldsskólanemendur, framhaldsskólanemendur: Slökkvið á fartölvunni og kveikið á heilanum. Blað og penni er allt sem þarf.
Góðir hlustendur, þið hafið náð sambandi við Rafaugað. Það útvarpar speki sem ristir grunnt, en svíður sárt. Eins og að skera sig á pappír. Lokið augunum og blakið eyrunum. Þetta er skemmtiþáttur fyrir lengra komna og klukkan er nákvæmlega núna, ég vara ykkur við, því nú verða sagðar fréttir af nútíð og framtíð með aðstoð framliðinna. Ömmur og afar alls staðar, heyriði í mér? Já, takk, já:
 • Ég sé að börn munu deyja úr eyðni, gulu, malaríu, niðurgangi, vatnsskorti, næringarskorti, kóleru, hungri og þorsta.

 • Hér er barn með kúlur í höfðinu og splundruð innyfli, kannast einhver við það?

 • Já, ég sé hérna miðaldra menn fagna sigrum í kosningum, sigrum í stríðum, nýjum tækjum og framförum og friði.

 • Ég sé innistæður hækka og skuldir og vísitölur og gott ár fyrir fjárfesta og launamenn og banka og útgerð og líftækni. Takk.

 • Ég sé götubörn í stórborgum, ég sé tungumál frumbyggja eyðast eins og frumskógar eins og ósonlagið eins og hreina loftið eins og jarðvegurinn.

 • Ég sé vopnaða lögreglu berjast við mótmælendur í öllum heimsálfum, andstæðinga kapítalisma, einræðisherra, stríða, Bandaríkjanna.

 • Ég sé barnaþrælkun, ég sé ólöglega innflytjendur kafna og stikna í gámum og vörubílum.

 • Ég sé íslensk fyrirtæki stækka utanlands þar sem hagvöxtur er meiri og vinnuaflið ódýrara.

 • Ég sé að bílainnflutningur eykst.

Það er greinilega auðvelt að spá, sérstaklega um framtíðina. Já, hér var að berast tilkynning: Upp hefur komist um samsæri vísindamanna og kennara. Öll náttúruvísindi eru röng. Raunvísindastofnun Háskólans verður lögð niður og húsið rifið á morgun kl. 17. Léttar veitingar verða í boði og kynlíf með framliðnum að eigin vali. Eðlisfræðin er þá loksins dauð.

Þá er ekkert eftir nema að svara spurningunni: Hvernig getum við klætt okkur í snyrtileg föt á hverjum morgni og gengið til vinnu eins og ekkert sé? Ættum við kannski að eyða deginum grátandi í rúminu? Samtaka nú kæru hlustendur, fellum eitt tár – einn, tveir og .

Neinei, ég er bara miðill og milliliður. Ég veit ekki hvernig á að bregðast við. Ég veit bara að þegar ég kemst í útvarpið er eins og kvikni sjálfkrafa á gömlu bandi í heilanum, gamall standard sem fjallar um siðferði þeirra sem varpa kjarnorkusprengjum og flísasprengjum á venjulegt fólk í borgum og bæjum. En nei, ekki núna, nú ætla ég að vera jákvæður og horfa á björtu hliðarnar þangað til ég verð blindur. Enda breytir það engu um gang mála hvort ég græt eða hlæ.

LAG: Will Oldham – I See a Darkness (4:43)

Vesturhiminninn er bleikur. Og Esjan er blá. Reykjavík er eitthvað svo sjálfri sér lík. Bærinn iðar af mannlífi, það rýkur af hassglóðinni í slökunarhúsum, gufuböðin eru þéttsetin og heimspekingar eru að undirbúa dagskrá kvöldsins. Málsnyrtistofum hefur verið lokað fyrir kvöldið og hugtakagreinar hvíla lúinn heilabörk með hæfilegum skammti af heróíni.

Á Skólavörðustíg eru allar búllur fullar, fólk borðar saman og drekkur saman. Fólk gengur um göturnar, það eru engir bílar. Síðar um kvöldið taka við skemmtanir, sumstaðar er sungið og spilað, á öðrum stöðum segja menn sögur, heimspekingar hugsa upphátt og brandarakallar og -kellingar grínast. Þá er löngum hlegið hátt eins og í gamla daga. Í kirkjugörðum hafa ungmenni samfarir undir laufþaki.

Mér finnst ég heyra rödd Miltons Friedmans og Hannesar Hólmsteins: Hvar er fólkið sem vill frekar grilla með vinum og fjölskyldu en að sækja æsingafundi? Hvernig virkar svona þjóðfélag? Enginn fer á fætur fyrr en líkamann langar, engar bifreiðar, engin skriffinnskubákn eða ráðuneyti, engin tóm herbergi uppvaxinna barna. Ekkert lágkúrusjónvarp, ekkert þreytandi dægurgarg í útvarpinu. Engar leiðindaklukkur sem klingja og bankar sem rukka.

Æ, hvaða draumórar eru þetta? Er ekki einhver leyndur hryllingur að baki? Þrælar sem þræla fyrir bæjarbúana? Eru kannski greindarskertir einstaklingar aldir á stofnunum og sterum og látnir slíta sér út í fjósum og á engjum? Með vöðva íþróttamannsins en meðfærilegir sem hundar á hlýðninámskeiði, erfðafræðilega framleiddir í verksmiðjum í Vatnsmýrinni.

Og hvar eiga vondir að vera: Hvar eru sviksamir fasteignasalar í þessu kerfi? Hvað með útvarpsmenn, auglýsingahöfunda, stjórnmálamenn, athafnamenn? Hvar eru forstjórarnir? Hvernig eiga þeir að komast í lax ef engir eru jepparnir? Hvar er frelsi þeirra? Er nauðsynlegt að skjóta þá?

En Stalín er ekki hér, þetta er einungis draumsýn sem birtist mér þegar Esjan er óvenjublá, himinninn bleikur, Snæfellsjökull væri tignarlegur ef ég sæi hann. Þetta er skemmtileg mynd, en sennilega fölsuð. Máluð ofan í vatnslitamynd eftir danskan tómstundamálara. Óhugsandi samfélag sem væri sam-félag , þar sem fólk væri meira saman og í meira félagi. Þar sem allir tækju þátt í að hugsa um og tala um lífið og tilveruna. Engir hermenn, engar herþotur, bara þrumandi deilur um Hegel og höfund Njálu, Snorra Sturluson og snjallar stellingar til samfara. Samfarahás gætum við barist um ást og viðurkenningu, við myndum reyna að slá hvert annað út með stórkostlegum frösum og líkingum, við myndum borða hollan mat og fara út að leika okkur.

Ég sé þetta varla fyrir mér, þetta eru bara orð á blaði, Heimdallur er enn við stjórn, lagið í útvarpinu er að klárast, klukkan er margt, kaffihléið er úti. Það er best að ég komi mér aftur inn í stúdíó og haldi áfram að lesa þátt inn á band, í röðinni Sögumenn samtímans .

LAG: Slowblow – Hamburger Cemetary (4:24)

Kæru hlustendur, þetta er seinni þáttur Rafaugans og heimsendir hefur aldrei verið jafn skammt undan. Ég vildi að ég gæti sagt eitthvað ykkur til hughreystingar en ég veit aðeins að heimurinn er bilaður og að ég kann ekki að laga hann. Ef þið teljið ykkur luma á lausn getið þið hringt inn eða skrifað hana niður og sent … ja, ég veit ekki hvert, en hver veit nema að verðlaun séu í boði, kannski bolir eða pitsur.

Við rjúfum nú útsendinguna í boði góðvina okkar í bankakerfinu, sem vilja endilega að við tengjum starfsemi þeirra við uppbyggileg skilaboð:

 • Ekki fara í megrun – það eina sem grennist er heilinn

 • Ekki nauðga nema í huganum

 • Vímulaust Ísland fyrir 1968

 • Ekki keyra full undir áhrifum fíkniefna á meðan bíllinn veltur niður fjallshlíðina og skilur eftir sig hjólför í viðkvæmri gróðurþekju, eitrandi loftið, eyðandi regnskógum

Góðir hlustendur. Nú hef ég hugsað um það í margar vikur: Hvað er það sem ég vil umfram allt annað segja í útvarpið? Á ég að tuða yfir háu verðlagi í landinu? Kvarta undan ofríki stjórnvalda og virðingarleysi fyrir sönnu lýðræði? Lýsa aðdáun minni á íslenskum íþróttamönnum? Kynna framboð til kosninga, boða byltingu? Ég meina, ég get sagt það sem ég vil, er það ekki? Svo mér datt í hug að segja eitthvað eins og: Mikilvægast af öllu er kærleikurinn . Kæru hlustendur, leggið stund á kærleikann. Eða er væntumþykja kannski ekki á valdi viljans? Reynið að minnsta kosti að koma vel fram, þó að ekki búi raunveruleg elska að baki. Það er nefnilega svo að þótt ytri fegurð komi ekki innanfrá (gagnstætt því sem stundum heyrist), þá kemur innri fegurð á vissan hátt utanfrá. Maður samlagast nefnilega grímunni sem maður sýnir öðrum. Því er mikilvægt að passa vel hvaða grímu maður ber. Nei, annars. Ég ætla ég ekki að þykjast búa yfir djúpri speki. Ég tek allt aftur. Eina heilræðið sem ég treysti mér til að standa við er þetta: Varist að ráða öðrum heilt, maður veit minna en maður heldur.

Ég held áfram eftir örstutt skilaboð frá sérstökum kostunaraðila:

Auglýsingar eru plat. Þær æra upp í okkur hungur eftir óhollum mat, óþarfa glingri, mengandi bílum, kynlífi og einföldum lausnum. Við erum meira að segja farin að telja okkur trú um að leysa megi samfélagsleg vandamál með auglýsingum. Farið er með blæstri og gjöllum gegn reykingum, gegn hraðakstri, gegn ölvunarakstri, gegn nauðgunum, gegn ofbeldi, gegn óhollustu, gegn geðsjúkdómum. Sum af þessum átökum eru kostuð af almannafé eða félagasamtökum, önnur eru dulbúnar auglýsingar fyrir mjólkurbú eða tryggingafélög eða eitthvað annað. Við skulum átta okkur á því að með auglýsingaherferðum er hægt að selja dót, en ekki koma á friði.

Rafaugað er í boði kærleiksríkra svartsýnismanna allra tíma.

Með lokalaginu fylgir kveðja. 10% af kveðjunni fá stelpurnar í skriðdrekadeild ísraelska hersins sem nú er stödd á Gaza – við elskum ykkur og sérstaklega gljásvart hárið. Þá má ekki gleyma öllum gíslunum, við munum aldrei gleyma ykkur, hvernig sem fer. Þá fær alþjóðlegt friðargæslulið í Darfur loftkenndar baráttuóskir, ég vildi að þið væruð til staðar. Seðlatalningateymi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fær líka hugheilar óskir um gleðilega drauma og síðast en ekki síst langar mig alveg sérstaklega til að koma til skila alveg rafmögnuðum stuðkveðjum til fangavarðanna í Guantanamo, þeir eru alltaf í stuði.

LAG: Low – Closer (5:00)

II. Hjálp ég er víðsýnn

Pistlar fluttir í Víðsjá í janúar–mars 2005.

Hraðnámskeið í hæglestri

Jörðin er á þrjátíu þúsund kílómetra hraða þar sem hún þeytist kringum sólina og sólkerfið er sjálft á fleygiferð um Vetrarbrautina, sem er líka á ógnarhraða. Mig svimar ekki, en það hvín í stjörnuþokum á undarlegum bylgjulengdum. Vísindamenn hlusta á þetta allt saman með mælitækjum sínum. Í bakgrunni ómar grunntónn tilverunnar, hann er þrjár gráður á Kelvin, við gætum kallað hann fullnægingarstunu Guðs, því það er bókstaflega miklihvellur sem við hlustum á. Við getum sem sagt heyrt upphaf tímans, en endalokin sjáum við ekki fyrir þótt okkur gruni kannski eitt og annað. Það sem við finnum á okkur er að tíminn líður, en stafli ólesinna bóka lækkar ekkert, hann hækkar með hverri mínútu. Og þá á ég einungis við þær bækur sem er alveg nauðsynlegt að lesa sem allra fyrst, bara til að geta fylgst með umræðunni. Þó svo ég væri eilífðarvél væri verkefnið vonlaust því það eru skrifaðar fleiri og fleiri bækur.

Já, „tíminn líður, trúðu mér,“ segir í gömlu kvæði. Tíminn er svo samofinn tilverunni að það er ekki hægt að ímynda sér að hann væri ekki til staðar og það er einhvern veginn ómögulegt að brjóta tímahugtakið niður í einfaldari og auðskiljanlegri þætti. En við reynum að höndla hann og náum einhverjum tökum á honum með því að slá taktinn, við teljum snúninga jarðarinnar kringum sólina, við teljum snúning jarðarinnar um eigin ás, við deilum þeim tíma niður í klukkustundir og mínútur og sekúndur. Við vöknum og vinnum og klukkan er alltaf að verða eitthvað. Hjartað slær í brjóstinu, bassatrommur dynja í tískuverslunum og tíminn minnir alltaf á sig.

Við áramót lítum við yfir hið liðna og horfum fram á veginn, við erum einu ári nær dauðanum. Og ekki seinna vænna en að rífa sig upp og stíga skref í átt að sjálfum sér, því sem maður vill vera, því sem maður er að verða. Maður er kannski fyrst og fremst eins og klukkan, alltaf alveg að verða eitthvað. Og það er alveg eftir hefðbundum gangi tímans að á eftir jólum kemur janúar og þá byrjar maður aftur að taka lýsi og borða pillur samkvæmt þúsund ára uppskrift galdralækna frá fjarlægum álfum og þá fer maður í líkamsræktarstöð og hleypur án þess að færast úr stað eins og bíll í lausagangi, leggst svo upp í rúm og sofnar út frá aldgagamalli speki um raðfullnægingar. Það er tímabært að leggja drög að hinu nýja sjálfi og uppfæra stýrikerfið.

Eftir því sem maður les í velgengni- og heilræðafræðum er allra fyrsta verk manns, vilji maður ná að fullkomna sjálfan sig og verk sín, að skrifa niður markmiðin. Séu þau komin á blað er líklegra að þau raungerist. Við höfum um þetta ótal sigursögur úr sjónvarpsþáttum á borð við Kastljósið og Oprah. Nú strengjum við áramótaheit og setjum okkur lífsreglur:

 • Ég skal hér eftir aldrei reykja meira en fjórar pípur af tóbaki á dag eða 4 vindla: eina pípu eða vindil eftir hverja máltíð og fjórðu um háttatíma. Sama er um hvort pípurnar eru litlar eða stórar.

 • Eyða öllum tómstundum til þess að lesa og skrifa. Lesa með eftirtekt, rita með snilld.

 • Skrifa alt hjá mér sem ég kaupi og sel og innvinn.

Nei það er ekki doktor Phil sem talar, þetta eru lífsreglur sem Þórbergur Þórðarson ( Ljóri sálar minnar , bls. 27) setti á blað, einhvern tíma snemma á síðustu öld. Hann átti eftir að bæta við þær og endurskoða, en nú á dögum er auðvitað allt með öðrum hætti og enginn takmarkar sig við einungis fjórar pípur. Bókhaldið er allt í heimabankanum og á kreditkortareikningum og allar skúffur fullar af kvittunum og ábyrgðarskírteinum fyrir dót sem maður hefur keypt eða fengið í jólagjöf.

En þá eru það tómstundirnar. Ekki viljum við að þær standi tómar. Þegar Þórbergur skrifaði reglurnar sínar var ekkert sjónvarp. Það voru heldur ekki klifurnámskeið, snjóbretta- og jöklaferðir, teygju- og fallhlífarstökk, internetskoðun og bloggsíðuráf, svo örfátt sé nefnt sem við getum gert við tímann okkar, við sem erum södd, meðvituð og vel lesin og vitum að við ættum að lesa meira í stað þess að stara á sjónvarp sem er réttnefnt auga djöfulsins. Við erum kannski ekki alveg jafnvel lesin og menntaskólaunglingar á meginlandi Evrópu, ruglumst kannski á Figo og Saramago, en við höfum að minnsta kosti húmor fyrir sjálfum okkur, ekki minni en vinirnir í Friends.

Eyða öllum tómstundum til þess að lesa og skrifa. Lesa með eftirtekt, rita með snilld. Náðuð þið þessu? Þið verðið að skrifa þetta niður. Ég ætla líka að hætta að vera öfundsjúkur út í orðheppna pistlahöfunda og íþróttadverga. Og ég er að hugsa um að læra að reykja.

Maður reynir að horfa á norðurljósin en forðast að ganga á ljósastaura eða í veg fyrir bíl. Maður horfir sem sagt til næturhimins með höfuðið fullt af bókum og netsíðum. Árið er liðið og maður reynir að átta sig; á maður að setja sér skrifleg markmið, strengja áramótaheit eða bara láta þetta rúlla áfram eins og áður? Ég held áfram að flytja inn kíló á kíló ofan af prentuðu máli sunnan úr Amazon-héraði á Englandi og ég reyni að minnsta kosti að leggja helstu titlana á minnið svo ég kaupi ekki aftur sömu bókina. Billy-hillurnar sænsku svigna undan bókum sem aldrei verða lesnar, já, eins konar fræ sem aldrei verða blóm. Að lesa fallega er að sá fræi að áður óþekktri plöntu í sálinni og leyfa henni að vaxa. Hvorki höfundur textans né lesandi veit að vísu hvaða ávöxt lesturinn ber eða hvernig hann verður á bragðið. En nei, nú er ég kominn fram úr mér, orðin eru gáfaðri en ég, tungumálið teymir mig áfram, ég veit ekki hvað ég er að segja, að lesa góða bók er frekar eins og að hljóta sár sem ekki vill gróa, skotsár í síðu vanabundinnar hugsunar, sár sem er í laginu eins og spurningarmerki. Nú heyrist mér að Franz Kafka sé farinn að tala í gegnum mig og það er ekki slæmt, en þó vissara að stíga fæti til jarðar.

Kæru hlustendur. Það er eins víst að ekkert verði úr þessu. Ég hef tilhneigingu til að slá hlutum á frest. Kannski verð ég farinn að svitna í ræktinni áður en mér tekst að opna Bréf til Láru , búinn að missa tíu kíló áður en ég kemst í gegnum formála Sigurðar Nordal að úrvali sínu af Andvökum eftir Stephan G. Stephanson. Búinn að tefla þrjúþúsund hraðskákir á netinu áður en mér tekst að lesa aftan á forsætisráðherrabók forsætisráðherra. Ég, sem ætla mér að eyða öllum tómstundum á nýju ári til þess að lesa og skrifa. Lesa með eftirtekt, rita með snilld.

Spádómar um liðinn tíma

Ó, að ég væri farþegi á stóru og fallegu farþegaskipi á leið yfir Atlantshafið. Ég sé fyrir mér skákeinvígi um borð milli sérvitringa, vindlareykingar og brjálaða listamenn. Það yrði drukkið með dadaistum og svo kíkt á dansiball á neðra þilfari hjá fátæku en lífsglöðu fólki. Ég sé fyrir mér að hitta berklasjúkling sem gerir ekki annað en að sigla milli heimsálfa og teikna myndir af skýjum. Frábær ljóð myndu kvikna – og alls konar ástarsambönd.

Þetta er kjaftæði hugsa hlustendur, og þeir hafa rétt fyrir sér eins og endranær. Þetta var aldrei svona, ekki einu sinni í bíó. En það er ekki útilokað að þetta verði einhvern tíma auglýsing fyrir ilmvatn eða hrukkueyðandi ensími.

Þegar ég var barn var alltaf gott veður, þægilegur rigningarsuddi, engin blindandi sól, engin reykspúandi grill. Þá var allt svo einfalt. Ýsa í hádeginu, bjúgu á kvöldin. Stórfjölskyldan sat saman í stofunni og sagðar voru sögur. Mamma var alltaf heima, pabbi talaði fullkomna íslensku og fór með kveðskap. Um helgar fórum við í skemmtiferðir á Laugarvatn eða til Hveragerðis. Með öðrum orðum var ekkert hass, ekkert kókaín, engir hjónaskilnaðir. Æ, æ, hér er ég aftur kominn af leið, og ég skil ekki hvernig orðin rotta sig saman og mynda setningar sem samsvara engu nema brotum úr gömlum minningum og bókum, ljósmyndum og, já, auglýsingum fyrir tómatsósu eða súkkulaði.

Þegar miðaldra menn í áhrifastöðum fara að tala um hvað allt var gott í gamla daga er rétt að athuga málið. Það getur verið að þeir hafi smurt fortíðina með fullmiklum ljóma. Því það að rifja upp felst ekki í að finna réttu hirsluna í heilanum, það er frekar eins og að mála nýja mynd af borg í blóma, eftir ljósmynd sem er tekin löngu eftir að borgin lagðist í rúst. Oft er skemmtilegt að sjá hvað kemur út, svipað og þegar maður setur saman húsgögn eftir leiðbeiningum sem ritaðar eru með ósýnilegu bleki. Orðin raðast einhvern veginn upp og samband þeirra við svonefndan raunveruleika er í besta falli hulið, jafnvel ekki til staðar.

Reynum aftur: Bubbi er ennþá alþýðuhetja, það er ennþá töluð íslenska í frystihúsum. Útlendingar voru í útlöndum, það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum, bara saumaklúbbar og taflfélög, ríkisbankar og kalt stríð. Sumir segja að Ísland hafi í raun og veru verið eitt ríkjanna í Sovét. Hér hafi verið eitt útvarp, einn sannleikur, og engar pitsur. Það var engin parmaskinka, enginn fetaostur, og box var bannað. Bækurnar voru leiðinlegar, of raunsæjar, hugmyndirnar voru leiðinlegar, of útópískar. Þeir segja að hér hafi mönnum ekki stokkið bros á sunnudögum af því að búðir voru lokaðar og ekki búið að finna upp vídeóið. Brésnéff veifaði okkur úr sjónvarpinu og menn óku jafnvel um á rússneskum bílum. Sömu menn segja að tíminn hafi liðið hægt og að þeim hafi liðið illa. Var það þannig eða geta minningar rotnað ef þær eru ekki geymdar í kæli?

Ég vakna um nótt. Sekúnda líður og sú næsta og svo enn önnur. Nákvæmlega þannig er lífið, segir rúmenski heimspekingurinn Emil Cioran. Ég opna bók til að gleyma tímanum. Það eru Andvökur eftir Stephan G., eða Uggur og ótti eftir Søren Kierkegaard. Ég les kvæði, eða misles ekki nema eitt orð og þá fer eitthvað af stað í höfðinu. Ein hugsun leiðir til annarrar, fortíðin birtist í ljóma eða drunga, kannski fer það eftir því hvaða heilasellur eru á vakt eða því hvað ég borðaði í kvöld eða jafnvel því hvort fiðrildi blakaði vængjunum á Hawaii í gær. Við erum það sem við étum, segja vísindin, og þá ætti að vera hægt að finna út úr hverju minningarnar eru, eða hvað? Líkaminn tekur atburðina og hrærir saman við pitsur og hamborgara. Og úr því verður baka með nostalgíubragði. Frumur líkamans eru stöðugt að endurnýja sig. Það er spurning með minningarnar.

Og hvernig sem því er háttað, þá er það svona: Á nákvæmlega sama tíma líður sekúnda í lífi sex þúsund milljón manna. Veruleikinn fæst í fjölda eintaka. Þú getur fengið hann með skinku, sveppum, eymd og volæði í öllum vinsælustu litunum. Engir tveir eru eins en allir eiga þó eitthvað sameiginlegt. Þetta er tilboð sem þú getur ekki hafnað, það er þegar of seint. Við fæddumst þegar við fæddumst og vorum ekki spurð. Sumir verða húsmæður í Bandaríkjunum og horfa á Oprah, aðrir skipuleggja peningapíramída í Noregi og í Norðurmýri hlustar menntakona á Víðsjá á meðan hún eldar þorsk í saffrani og kókossósu. Á hverri mínútu deyja tíu börn úr hungri, á hverri mínútu gerir einhver einhvers staðar heiðarlega tilraun til að átta sig á heiminum og því hvað það er að vera manneskja.

Sumir sjá dásamlegar sannanir þar sem aðrir sjá ekki annað en óskiljanleg tákn á blaði. Þegar tveir menn hittast yfir kaffibolla er eins víst að þeir séu ósammála um flest, öðrum finnst kaffið of þunnt, hinn drekkur ekki kaffi heldur grænt te og heldur að það muni lengja lífið og bæta meltingu. Ég er að reyna að segja þetta: Það er vandi að spá og sérstaklega um fortíðina eða kannski einkum og sér í lagi um það sem gerist nákvæmlega hér og nú. Bráðum koma blessaðar fréttirnar og þar með staðfestist að tíminn líður, við erum ennþá til og raunveruleikinn líka. Sumir munu segja að þessi mynd af heiminum sé skökk, hún halli til vinstri, á meðan aðrir spyrja sig hvers vegna það sé sól á myndinni efst í hægra horninu, með sólgleraugu, fyrst það er alltaf rigning eða snjókoma úti.

Kæru hlustendur. Einu sinni var ég skráður á lista. Þetta var einhvers konar félagatal. Kannski var þetta hið alræmda félag þeirra sem aldrei ganga í félög sem tækju menn eins og þá sjálfa inn í félagið. Ég man það ekki alveg, en ég man að ég var kominn á lista á einhverri netsíðunni. Þegar ég svo sendi tölvupóst til eiganda síðunnar kannaðist hann ekki við að ég væri á listanum. Daginn eftir hringdi hann í mig og spurði hvað ég hefði eiginlega verið að tala um, hvaða lista ég væri eiginlega að tala um og hvað væri þetta „internet“. Hann kannaðist ekkert við það. Svo skellti hann á og þegar ég reyndi að hringja í aftur í hann, í númerið sem stóð á símnúmerabirtinum, fékk ég þær upplýsingar að það væri enginn notandi með þetta símanúmer.

Frelsið kemur fljúgandi

Góðir áheyrendur, ég er millistéttardrengur. Hreinræktuð afurð velmegunarþjóðfélagsins, meira og minna alinn upp á stofnunum. Einn vinur minn orðar það svo, að ég hafi kannski ekki fæðst með silfurskeið í munni, en að hún sé að minnsta kosti úr stáli. Ég er frjáls, eða hvað þýðir orðið frelsi? Ég spyr í fullri alvöru, því þetta er mikið auglýst vara sem virðist fáanleg alls staðar en ég finn enga innihaldslýsingu á pakkanum. „Frelsið er yndislegt“ segir í einni auglýsingu og ég gæti alveg hugsað mér frelsi til að liggja uppi í rúmi og hugsa í stað þess að hlaupa á eftir klukku kapítalismans sem virðist herða ganginn með hverju árinu. En ég má ekki liggja frameftir í rúminu, undir hlýrri og notalegri sæng, borða smákökur, drekka te og láta hugann reika því það þarf að gera fleira en gott þykir, það þarf að semja pistil fyrir Víðsjá.

Við höfum frelsi til að kaupa þau vörumerki sem við viljum, horfa á þá sjónvarpsþætti sem við viljum og kjósa jakkafatamann á þing að eigin vali og já, það er einhver óþörf kaldhæðni í þessu hjá mér, og ég veit að við höfum líka frelsi til að hugsa á móti straumnum, lifa á súrmat og mótmæla á götum úti ef það er gert af hógværð og stillingu. Ég má hugsa það sem ég vil, og segja næstum það sem ég vil, en segi þó oft eitthvað sem ég ekki beint vil. Ég er að minnsta kosti hér að tala. Og ég ætla að segja ykkur sögu.

Einu sinni var ungur og metnaðarfullur kennari. Hann var nýútskrifaður og með höfuðið fullt af fögrum hugsjónum. Hann vildi að nemendur sínir þroskuðust og yrðu frjálsar hugsandi manneskjur. Hann vildi opna augu þeirra og eyru, víkka út sjóndeildarhringinn. Hann vildi að þeir gerðu sér grein fyrir því að veröldin og þjóðfélagið eru ekki til að laga sig að og falla inn í, heldur til að móta og skapa. Að hver og einn á að fá að njóta sín og rækta sína hæfileika og þeir eigi ekki að vera þægir þegnar heldur virkar manneskjur. Og hann vissi líka að þessi hugmynd fer illa saman við skipulagt skólastarf, því skólar eru ekki frjálslyndar eða lýðræðislegar stofnanir, og að þetta yrði ekki auðvelt, því það er erfitt að kenna ungum manneskjum að standa uppréttar, sérstaklega ef þær hafa verið nokkur ár í skóla.

Nemendurnir voru vel upp aldir, voru af góðum og gildum ættum og höfðu verið hjá ströngum og virtum kennara af gamla skólanum veturinn áður. Þeir voru vanir því að gera það sem þeir voru beðnir um að gera og það með ánægju. Þeir trúðu því að kennarinn vissi hvað þeim væri fyrir bestu, að þeir væru á öruggri leið inn í framtíðina, í stuttu máli, að þeirra eigin persónulegi vilji félli algerlega að vilja kennarans og þar með skólans og þar með menntakerfisins og þar með þjóðfélagsins. Fyrirmyndarunglingar sem voru ekki með neitt rugl.

Kennarinn ungi lenti fljótlega í nokkrum vandræðum. Nemendurnir vildu ekki læra. Þeir voru vanir því að fást við vel skilgreind verkefni þar sem svörin voru annaðhvort rétt eða röng, en þeir voru ekki vanir því að þurfa að mynda sér skoðanir um alla hluti, hvað þá að verja þær skoðanir og alls ekki því að hafa frelsi til þess að gera það sem þeir vildu í skólanum. Kennarinn ungi gafst þó ekki upp, heldur reyndi að útskýra fyrir unglingunum að hann væri að reyna að frelsa þá. Að vísu verðið þið að mæta í tíma og taka lokapróf, það er ekki í mínu valdi, sagði hann, en hér í mínum kennslustundum höfum við þónokkuð frelsi. Hann hélt ræðu. Og svo hugsaði hann um þetta aðeins meira heima hjá sér og hélt aftur ræðu daginn eftir. Þegar á leið haustið var hann farinn að halda ræður nánast daglega. Og ræðan var yfirleitt eitthvað á þessa leið:

Frelsi er eitthvað sem er innra með okkur. Við þurfum stöðugt að berjast við langanir okkar og hugarheimur okkar takmarkast af endimörkum þekkingar okkar, hugtaka og orða. Hver og einn verður að vinna að því að útvíkka sjónarhorn sitt, brjótast út úr sínu sjálfskapaða helsi. Það er nefnilega rétt sem þýski heimspekingurinn Nietzsche sagði, menn hneigjast til leti. Og þar er hugsanaletin ekki undanskilin, því oft er eins og heilinn vilji helst af öllu bara vera á sjálfstýringu, fara eftir fyrirframákveðnum leiðum. Maður fer að tala í klisjum og hugsa í klisjum, heimurinn verður ógreinileg og óspennandi klessumynd, allt verður leiðinlegt og maður hættir eiginlega að vera til. Maður verður eins ófrjáls og hugsast getur því maður sér enga nýja möguleika, getur ekki ímyndað sér neitt öðruvísi en það er. Og þannig viljið þið ekki verða.

En þá kom að því að nokkrir frakkir nemendur fóru að snúa út úr orðum kennarans. Einhver hafði á orði að þessi Nietzsche hefði verið perri með kynsjúkdóm. Þessir nemendur svöruðu öllum spurningum með skætingi og rifu kjaft. Kennarinn, sem hafði í fyrstu verið fremur alþýðlega klæddur og kæruleysislega rakaður, tók til bragðs að mæta alltaf í snyrtilegum gráum jakkafötum, vandlega rakaður. Hann reyndi að beita gamaldags aga, nokkuð sem hann hafði aldrei ætlað sér að gera. Hann rak óþekka nemendur úr tíma en umbunaði hinum sem sýndu lágmarkskurteisi. Hann varð stífari og grárri með hverjum deginum. Og getur verið að unglingarnir hafi smám saman lært að vera frjálsir, að það hafi tekist að aga nemendur til frjálsrar hugsunar? Nei, ekki í þessari sögu. Nemendur rugluðust bara enn frekar og að lokum höfðu allir snúist gegn honum. Um jólin var kennaranum skipt út því skólastjórinn og foreldrar óttuðust útkomuna í samræmdu prófunum. Kennarinn náði sér í starf sem fangavörður. Saga þessi kennir okkur ekki neitt, hún er óraunhæf í mörgum aðalatriðum. Ég samdi hana að gamni mínu út frá þeim hugleiðingum að það væri erfitt að þvinga frelsi upp á fólk.

Nú finnst hlustendum kannski þessi umræða vera helst til alvörulaus, loftkennd og lítið um hagnýt ráð. Hvað er hægt að gera til að auka frelsið í heiminum? Við vitum að valdamesti maður heims, Bandaríkjaforseti, segist vera að frelsa þjóðir, hann heldur því fram að hann berjist gegn kúgun hvar sem hún finnst. En það er fleirum en mér sem finnst það grunsamlegt að leiðin til frelsis sé best rudd með loftárásum. Mér finnst það einhvern veginn ótrúlegt að hagsmunir okkar allra og þar með talið almennings í Írak, falli svona fullkomlega að olíu- og valdahagsmunum ríkustu og öflugustu manna. Ég kann ekki við að klæða þetta frekar í búning myndlíkinga og hæðni, er þetta virkilega svona? Ég legg áherslu á að ég spyr ekki hvort að George Bush sé að ljúga, en ég vil vita hvað hann er að meina.

Munurinn á okkur hér á Íslandi og hinum svokölluðu ófrjálsu þjóðum, er til dæmis að við eigum meiri peninga og það er ekki miðað á okkur úr vélbyssuhreiðri eða skriðdreka ef við skjótumst milli húsa. Við kjósum á fjögurra ára fresti. Við megum hæðast að valdhöfum. Þetta er ekki léttvægt í mínum huga en ég veit ekki hvort Írakar vildu frelsast, eða öllu heldur veit ég ekki hvort þeir telja sig núna frjálsa eða á leið til frelsis. Vildu þeir innrás? Það getur verið að sumir hafi viljað hana og aðrir ekki, en það sem ég veit er að margir liggja í valnum. Þeir eru ekki sérlega frjálsir. Nú er ég bara millistéttardrengur og þekki ekki aðstæður í Mið-Austurlöndum en mér finnst þversögn í því að ráðast á land, leggja það í rúst og leggja það undir sig í því skyni að frelsa þá sem eftir lifa.

HLJÓÐ Í BAKGRUNNI: Hvinur eins og í sprengju að falla til jarðar.

Og nú heyrist mér að eitthvað sé að nálgast mig úr lofti á mikilli ferð, sennilega frelsið, og best að fara að setja sig í stellingar.

HLJÓÐ Í BAKGRUNNI: Sprengja lendir og springur.

Af menntun

Heyrst hefur að í draumalandi framtíðarinnar verði grunnskólinn aðeins fimm ár, framhaldsskólinn tvö, BA-próf fáist á einu ári, og doktorsnafnbót eftir tveggja vikna námskeið. Starfsævin lengist og hamingjan með.

Hvers vegna ætti að stytta nám til stúdentsprófs á Íslandi? Eru stúdentar of vel að sér við lok náms? Er það vegna þess að námstími er glataður tími? Ég veit að margir nemendur íslenskra framhaldsskóla eru á þeirri skoðun, en gildir það líka um yfirvöld menntamála? Menntamálaráðherra sagði að vísu nýlega að tími nemenda væri dýrmætur. Ég skildi hana þannig að tími þeirra væri dýrmætari en svo að það mætti sóa honum í framhaldsskóla. Hún sér væntanlega fyrir sér að fólk geti hafið arðbær störf í þjóðfélaginu ári fyrr. Í sjálfu sér er lengd skólagöngu ekki heilög. Það getur vel verið að hana megi stytta og það um mörg ár. Margir virðast til dæmis lítið vita og hafa þrönga sýn þrátt fyrir háskólapróf. Skólaganga og menntun er sitt hvað, eins og Íslendingar hafa reyndar löngum vitað og vitað það kannski fullvel á köflum, því þeir hafa stundum ranglega dregið þá ályktun að skólar séu ekki til neins. En nú hefur sem sagt verið ákveðið að fjögur ár séu of mikið, sennilega hafa unglingarnir allt of mikinn frítíma, tíma sem er sóað í hljómsveitaræfingar, kórsöng og tilhugalíf – sem sagt óþarfa. Það hefur verið samin skýrsla.

Í skýrslunni um styttingu námstíma til stúdentsprófs er erfitt að finna önnur rök fyrir styttingunni en þau að það spari peninga og að þetta hljóti að vera hægt, fyrst námið er styttra annars staðar. Svo er að vísu minnst á að hugsanlega muni fleiri nemendur ljúka námi sem hefja það („brottfallið minnkar“), en það er mér reyndar óskiljanleg óskhyggja, jafnvel á borð við þá hugdettu sumra skólamanna að féð sem sparist við styttinguna renni í vasa kennara. Um inntak námsins er nánast ekkert rætt í skýrslunni, það kemur ekki fram að stytting bæti nám eða kennslu, og ekkert er rætt um hvort hugsanlega hafi íslenska kerfið einhverja kosti. Nei, skýrslan er ein löng æfing í tilfærslum, klippingum og límingum á kenndum klukkustundum í hinum ýmsu greinum og ítarleg spá um það hversu miklu ódýrara verði að hýsa skóla framtíðarinnar með færri nemendum. Það á sem sagt ekki að bæta neitt – það á að spara.

Ein helstu rökin sem nefnd eru fyrir styttingu framhaldsskólans eru að svona sé þetta í útlöndum, í nágrannalöndum okkar. Í Danmörku og Svíþjóð er opinberlega gert ráð fyrir því að nemendur útskrifist nítján ára og geti þá hafið háskólanám. Þetta geta nemendur reyndar einnig gert á Íslandi ef þeir vilja, en flestir kjósa að vera fjögur ár. Ég athugaði þó aðeins málið og komst að því að fæstir Danir útskrifast nítján ára. Þrír af hverjum fimm eyða ári aukalega í grunnskóla, og fjórir af hverjum fimm dönskum stúdentum taka heilt ár í frí og ferðalög að loknu stúdentsprófi. Það heitir „sabbatår“ og er orðið sérstakt hugtak í dönsku máli. Til að bæta gráu ofan á svart útskrifast danskir nemendur úr háskólum seinna en flestir aðrir. Og berum okkur enn saman við Dani. Þar er krafist meistaraprófs til þess að fá kennsluréttindi í framhaldsskólum auk árs í kennslufræðum. Það tekur því sex ár en ekki fjögur eins og hér á landi. Er kannski kominn tími á lengingu í þessum efnum?

Háskólanám í Danmörku er, eins og víðast um hinn vestræna heim, almennt lengra en hér, en Ísland hefur verið eina landið í hinum vestræna heimi þar sem BA-próf hefur dugað fólki til að fleyta sér fram fyrir í röðinni á atvinnumarkaði. Þetta fer þó smám saman að breytast hér, eftir því sem fleiri ljúka slíku prófi.

Annað sem ólíkt er með Íslandi og öðrum löndum er að hér vinna nemendur með námi. Það er mjög ánægjulegt og er ljósi punktur skýrslunnar að höfundar skuli minnast á þetta atriði. Hvort sem peningarnir sem unglingarnir vinna sér inn fara í óþarfadót og skemmtanir eða námsgögn er þessi vinna nemenda til verulegra vandræða í skólastarfi. Hún er réttnefnd plága. Eins og fram kemur í skýrslunni benda rannsóknir mjög til þess að árangur í stærðfræði og náttúrufræði verði lakari eftir því sem nemendur vinna meira með námi. Ef stytta á framhaldsskólann hlýtur að verða að nýta tímann eitthvað betur og það er ekki hægt ef nemendur eyða drjúgum hluta af þeim vökutíma sem þeir eru utan skólans í vinnu. Hvernig á að fara að því veit ég ekki, því tilmæli þar að lútandi hafa engin áhrif. Í þessu samhengi er við hæfi að minna á að danskir og sænskir nemendur fá námsbækur og gögn ókeypis en íslenskir nemendur þurfa að eyða tugum þúsunda á ári í bækur.

Opinber umræða um inntak framhaldsskólans hefur engin verið, að minnsta kosti ekki á síðari árum, enda snýst umræða á Íslandi yfirleitt um peninga. Hvort sem um er að ræða viðskipti, heilsufar, umferðaröryggi, aðstoð við fatlaða, barnapössun, kirkjur, trúmál, frelsi, fegurð eða menntun. Hér eru öll mál fyrst og fremst efnahagsmál. Í námsskrám er þyngsta áherslan lögð á svonefnt „hagnýtt gildi“ menntunar. Verkefni skólanna virðist fyrst og fremst vera að framleiða „samkeppnishæft vinnuafl“. Viljum við líta á börnin okkar sem vinnuafl eða eru þau manneskjur? Ættum við ekki frekar að velta því fyrir okkur hvernig vænlegast er að stuðla að þroska þeirra, gefa þeim færi á að auka skilning sinn og vitneskju og hjálpa þeim til að skerpa hugsunina. Það er hægt að smíða hraðskreiðari bíla og flugvélar, tölvur vinna hraðar og hraðar, það er hægt að borða hratt og lesa hratt. En það hefur ennþá ekki fundist leið til að hugsa hraðar. Það er hægt að venja sig á að hugsa betur, og það ætti að vera meginmarkmið skólans. En það gerist auðvitað ekki með því að fara yfir einhverjar staðreyndir og þekkingaratriði á hundavaði, til þess að hugsa djúpt þarf ákveðinn tíma og ákveðið næði. Hröð yfirferð vinnur beinlínis gegn því.

Nei, vandamálið er ekki of löng skólaganga heldur almennt að menntunin er of grunn og yfirborðskennd. Fjöldi nemenda útskrifast einungis til að fá stimplaðan pappír, til að verða stúdent eins og hinir. Mörgum finnst námsefnið í raun og veru ekki koma sér við. Það er einhvers staðar þarna sem framfarir vantar. Ég hef oft verið krafinn svara af nemendum um það hver sé eiginlega tilgangur náms þeirra í stærðfræði. Spurningin er út af fyrir sig góð, og svarið er alls ekki einfalt. Til dæmis hefur það að kunna einstakar reikniaðferðir fremur lítið gildi, og yfirleitt ekkert ef enginn skilningur liggur að baki. Kannski fyrir utan venjulegan kjörbúðareikning. Stærðfræði getur hins vegar veitt manni nýja innsýn í veruleikann. Aðferð hennar, að rannsaka óhlutbundin hugtök með rökvissum hætti, hefur getið af sér geysilega öflugar kenningar sem nýtast í vísindum, á ótrúlegustu sviðum. Að hafa vald á þeim hugsunarhætti er mikill kostur og dýrmætt fyrir hvern þann sem hefur. En á hinn bóginn getur venjulegur borgari svo sem komist af án þess að kunna nokkuð í stærðfræði. Á sama hátt og hægt er að lifa án þess að kunna nokkuð í neinu.

Góðir hlustendur, ég er ekki að segja að það megi ekki stytta framhaldsskólann. En það verður þá að skera niður námsefnið. Reyndar mætti skera niður núgildandi námsefni án þess að stytta tímann. Allt of margir líta á nemendur sem hráefni á færibandi. Skemmdu hráefni eða lélegu er hent í ruslið, úr hinu er unnið svonefnt samkeppnishæft vinnuafl. Við ættum að einbeita okkur að því að leiða fram þroskaða sjálfstætt hugsandi manneskju og hætta að framleiða vöru til sölu og notkunar á vinnumarkaði.

Eitt slagorð ungra danskra sósíalista er svohljóðandi: Menntun er fyrir lífið, ekki atvinnulífið. Ég bæti um betur og segi: Menntun er lífið. Eða öllu heldur: Lífið er menntun.

Hugleiðingar um tækni

Allar mínu bestu hugmyndir fæ ég við uppvaskið og þess vegna vil ég ekki kaupa mér uppþvottavélina, sem mér er sagt að spari heilmikinn tíma. Það er í sápukúlunum og fitubrákinni eftir vel heppnaða steikingu upp úr olíu sem hugmyndirnar birtast og ég læt enga vél ræna mig þessum sýnum. Ég slepp líka við að horfa á leiðinlegt sjónvarp á meðan ég bursta. Og frábærar hugmyndir eiga það líka til að narta í eyrnasneplana á manni þar sem maður er á göngu um götur bæjar eða úti í móa. Það er sjaldgæfara að ökumenn verði fyrir slíku enda er heilinn á þeim oftast fullur af dægurlögum og heift út í aðra vegfarendur. Við þær aðstæður vaxa engin blóm í sálinni. Ég nefni þetta tvennt sem einföld dæmi um það að vélar og tækni eru ekki endilega til bóta á öllum sviðum.

Það glitrar af frosnum hundaskít við kirkju, en ekkert sést til stjarna á himni því kirkjan er upplýst. Það eru ljóskastarar sem lýsa svo sterkt að hægt er að telja sprungur í steypuverkinu en geimurinn, alheimurinn sjálfur, drukknar í þessu sama ljósi. Til að sjá stjörnur þarf að fara út úr upplýsingunni, eitthvert burt, til dæmis í sumarbústað eða heilsársbústað, eitthvert þar sem hægt er að njóta náttúrunnar og nútímaþæginda. Við brunum út í náttúruna og þekkjum það öll að vera á yfir hundrað kílómetra hraða, hundelt af húnvetnskri lögreglu. Þá áttar maður sig á því að myndin sem maður hefur af landinu er eins og hreyfð ljósmynd. Íslensk náttúra verður að strikamerktu malbiki endurteknu þúsund sinnum eins og einhæft kvæði um falleg fjöll. Sjóndeildarhringurinn er klofinn af þjóðveginum og vegurinn hefur brennt sig á sjónhimnuna miðja. Þá er ekki úr vegi að slaka á í góðum bústað með heitum potti og hillum fullum af heimsbókmenntum.

Og það er um að gera að vera nógu fljótur á leiðinni, helst vildi maður að leiðin væri þráðbein og jafnvel neðanjarðar. Ég segi: Bíðið bara þangað til þjóðvegur eitt verður allur kominn niður undir jarðskorpuna, þá getum við fyrst gefið í og keyrt hringinn í kringum landið á áttatíu mínútum. Verður þá fyrst fullnægt tæknilosta okkar, þessari djúpstæðu þrá okkar eftir því að nota alla tækni sem við ráðum yfir? Sjálfsagt ekki, því henni verður aldrei fullnægt, en þetta myndi spara peninga og það er fyrsta boðorðið: Ef það er hægt að finna einhverja peninga sem sparast, þá er eitthvað í því. Svo væri mögulegt að varpa myndum af fjöllum og fossum á veggina, jafnvel örlítið tilkomumeiri en í alvörunni, og það mætti skipta út myndunum og þannig væri hægt að auka alla upplifun okkar á náttúrunni og engin lömb væru til að trufla bensínfótstigið. Ökuþórar þyrftu ekki lengur að grilla fé á laun.

Auðvitað er þessi hugmynd fáránleg, það sjá allir. Það er landið okkar fagurt og frítt sem heldur okkur gangandi, eilífur innblástur skálda og málara, sumarbústaðagrillara og golfáhugamanna.

Já, gott útsýni yfir kjarri vaxið hraun, fjöll í fjarska og hlátrasköll úr næsta bústað, allt er þetta ómetanlegt og endurnærandi. Í hópi fjölskyldu og vina lætur maður gamminn geysa og sögur eru látnar fjúka eins og til forna þegar sögur voru ekki á prenti heldur lágu þær í loftinu og voru sennilega aldrei sagðar tvisvar nákvæmlega eins. Í dag eru sögur prentaðar á bækur þegar höfundurinn hefur slegið textann inn á tölvu. En, eins og segir í tuttugu ára gamalli auglýsingu, þá má með réttum hugbúnaði breyta tölvu í öflugt tæki sem nota má við bréfaskriftir og skýrslugerð. Þarna sparast tími sem höfundur textans getur notað með öðrum hætti en fer kannski einmitt ekki í neitt betra þegar á reynir. Eða eru skáldsögur dagsins í dag betri en þær gömlu? Eru þær kannski einmitt aðeins verri vegna þess að þær vinnast hraðar? Ég er að reyna að segja þetta: Það geta falist verðmæti í hægagangi og gömlu verklagi.

Og við horfum til fjalla og jökla og veltum því fyrir okkur hvort fegurð borganna hafi verið login, eins og í ljóði eftir Stefán Hörð, eða hvort myndin í gluggarammanum sé nokkuð fölsuð, hvort háspennulínurnar bæti við myndina, hvort árnar verði einhverjum einhvers staðar að rafmagni, hvort rauði bíllinn sem glitrar úti á stæði sé fallegur á sama hátt. Ég hefði átt að taka meira í heimspeki, hugsar maður, fagurfræði og hvítvín valda óvönum manni ruglingi. Og svo hugsar maður um það hvort það skemmi fyrir að fiskum er beinlínis sleppt í stöðuvatnið, og golfkúlur fljúga um loftið þótt þær syngi ekki eins og fuglar og maður man hvort sem er ekkert hvað þeir heita og ekki hvað tindarnir heita sem sjást í fjarska, en gerir það nokkuð til? Heita vatnið er að renna í pottinn og batteríin að hlaðast, einhver er að hella upp á kaffi.

Í hillunni hefur einhver skilið eftir Skólaljóðin við endann á langri röð af Arnaldi Indriða. Gott, gott, hugsar maður, best að fá fegurðina beint frá skáldunum, hvaða orð fara vel við þessa fjallasýn, sjáum til, hér er Jónas eða bíddu við, orti ekki Einar Ben eitthvað um fallegar virkjanir?

Skein yfir landi sól á sumarvegi og silfurbláan Eyjafjallatind…

Hmm já, þetta gæti svo sem átt við, og best að taka skólaljóðin með sér útí pott, lesa fyrir fjölskylduna undir beru íslensku lofti, hreinasta loft í heimi fyrir hreinustu ljóð í heimi, lesin í hreinasta vatni í heimi. Þetta er allt svo hreint eitthvað, og gott ef íslenskt rafmagn er ekki hreinasta rafmagn í heimi. Hvað ef Njála hefði gerst við Kárahnjúka, værum við þá eitthvað viðkvæmari fyrir þessu? Hvað ef fegurstu ljóð íslenskrar tungu fjölluðu (já, fjölluðu) um þau fjöll, mundi það einhverju breyta?

Ég er í raun og veru kominn að þessari spurningu: Til hvers erum við hér á Íslandi? Hvað höfum við fram að færa? Við höfum tónlist og ljóð, kvikmyndir og tækni, ættfræði og arfgenga sjúkdóma. Hér eru óbyggðir og sjórinn allt um kring. Einhvern veginn verðum við að lifa, en það vill oft gleymast að eins og staðan er í dag eigum við Íslendingar skítnóg af peningum. Það er ekki vandamálið. Það ætti að vera kominn tími til að við spyrjum okkur að því hvað við viljum gera, bæði fyrir okkur sjálf og líka heiminn. Og sem ég stend við uppvaskið kemst ég að því að það jákvæðasta við allt þetta virkjunarmál er að allmargir útlendingar fá þó einhver laun fyrir að sprengja sundur íslenskt grjót, besta grjót í heimi. Að vísu grunar mig að launin séu allt of lág en þau eru sennilega skárri en þau sem fást í heimalandinu.

Og þá er að koma sér aftur heim, drífa sig í vinnuna, slökkva á sjálfinu og bíða eftir næsta frídegi.

Kann einhver gott íslenskt orð yfir hysteríu?

Allt í einu var veðrið gott. Vel sást til fjalla og glitský voru á lofti, möguleikar í loftinu. Ég var á leiðinni í útvarpið. Ég hugsaði um hvað ég ætti að segja. Á ég að tala um hugtakið gestrisni? Á ég að tala um það að sumir virðast óttast að útlendingar séu eins og gestir sem éta allt sem til er í húsinu og kúka á stofugólfið? Sumir Íslendingar móðgast ef erlendur gestur drekkur ekki brennivín og borðar ekki kæstan hákarl. Ég gæti talað um flóttamannavandann, sem dómsmálaráðherra telur fyrst og fremst fólginn í því hve erfitt er fyrir Vesturlönd að stemma stigu við hælisleitendum. Ég sem hefði frekar haldið að vandinn væri allt fólkið sem býr við svo skelfilegar aðstæður að það leggur allt undir til að flýja þær. Svo fór ég að hugsa um alla bílana í borginni og hvernig þeir spæna upp malbikið, sem verður að ryki í loftinu og fyllir lungu gangandi vegfarenda, það er að segja barna og gamalmenna. Og á meðan bílarnir fara eftir vegakerfinu fljóta peningar um símalínur í jörðinni. Eftir rafrænum brautum flýtur fjármagn milli húsa, milli borga, milli landa. Fjármagnið er frjálst en fólkið ekki, hugsaði ég, en svo ég haldi mig við það sem er satt og rétt þá gæti ég sagst hafa farið í Kringluna.

Eða ég gæti sagt: Ég gekk inn um rafdrifnar glergáttir sem skynjuðu nærveru mína. Inni var allt úr einhverju sem ég ímynda mér að sé marmari eða eitthvað sem á að vera eins og marmari. Þar var mikill mannfjöldi, fólk sem fór búð úr búð, sumir báru litríka innkaupapoka, aðrir voru með hvítan ís í brauðformi. Þarna var eldra fólk, ellilífeyrisþegar sem gátu eytt deginum í þægilegu loftslagi innan um allar unaðssemdir iðnaðarríkisins, og þar voru unglingar, börn á skólaaldri, sum hver með neysluglýju í augunum, vinahópar, kærustupör; þarna fóru fram samskipti og þarna fóru fram viðskipti. Allt eins og verið hefur síðan fyrstu borgir mannkyns risu kringum verslunarstaði við Miðjarðarhaf. Ljúf tónlist ómaði, áreynslulaus, falslaus innitónlist, án stígandi, án styrkleikabreytinga eða tóntegundaskipta, fór í eins konar hringi, hafði ekkert upphaf, stefndi ekki að neinu, og fyllti mig öryggi. Vinalegir ungir menn í dökkum einkennisbúningum pössuðu upp á að allt færi vel fram. Við og við hvæstu kaffi- og kakóvélar, börn skræktu og gosbrunnar gusu. Fólk var komið til að takast á við langanir sínar, tilbúið að gefa aðeins eftir og veita sér brot af þeim munaði sem sálin þráir: Skart og fögur klæði, gómsæta málsverði, fallegan húsbúnað, tónlist á plötum, sögur í lifandi myndum eða innbundnar á prenti.

Ég speglaði mig í glerrúðum og umbúðum og ytra borði varnings, fann til svengdar og hélt inn í risavaxna matvöruverslun, framhjá skrautlegum borðum, hlöðnum gylltum ávöxtum sítrusættarinnar og munnvatnið spratt fram þegar ég leit á ferska berjaklasa sem höfðu borist frá Afríku með þotu á suðrænum vindum. Búðin var bókstaflega full af mat frá fjarlægum löndum. Ó, heimsvæðing, ó, mín elskulega alþjóð. Þú kenndir mér á kúskús og kaffi, engifer og avókadó. En neitar samt að borða skyr. Vit mín fylltust sætri angan af nýbökuðu valhnetubrauði og heitum fíkjum. Þar sem ég hafði einungis smáaura meðferðis lét ég mér duga franskt horn með skinku og osti og appelsínusafa. Posarnir sungu í röddum við afgreiðsluborðin, þessir sendiboðar, þessar taugafrumur í hagkerfinu. Ég bragðaði á brauðinu og rifjaði upp tilganginn með þessari för, ég ætlaði í húsbúnaðarverslun að kaupa vekjaraklukku. En leiðin var löng og varningur verslananna kveikti með mér löngun eftir hamskiptum.

Hvernig væri að hefja nýtt líf, skipta um stíl, henda gömlu lörfunum og ganga í nýjum fallegum fötum fram í morgundaginn? Því þótt fegurð sálarlífsins sé ekki í réttu hlutfalli við ytra útlit er það löngum ofsögum sagt að ekkert samband sé þar á milli. Fallegir skór, manninn skal meta út frá því í hvernig skóm hann gengur, það er í einhverri smásögu minnir mig, og ég borga með korti. Það þýðir að send verða rafræn boð í bankann, táknum er breytt á hörðum diskum, einn verður núll, núll verður einn, það eru engir seðlar eða áþreifanleg mynt, aðeins tölur á tölvuskjá. Ég bíð meðan tölvan tengist, nær sambandi við aðra vél, sendir, móttekur, sendir, móttekur, og svo spýtir hún út úr sér pappírsstrimli sem ég reyni að skrifa nafnið mitt á, eða, mér dettur í hug að skrifa Karl Marx eða eitthvað, það er aldrei litið á þessa miða hvort sem er.

Eftir kaupin, á leiðinni út, kemur yfir mig depurð og ég sé eftir öllu saman: Þetta er vitleysa, ég á ennþá ágæta skó frá því í fyrra, og halló það er samviskan sem talar: Hversu mikill kínverskur sviti liggur að baki þessum íþróttaskóm og hvað bera þeir úr býtum sem standa við saumavélarnar? Kannski álíka mikið og Salka Valka hafði upp úr hannyrðum á sínum tíma. Æ, hvernig læt ég, þetta eru tímar frelsis og fjármagns, það eru frábær tækifæri alls staðar fyrir fátækt fólk til að, til að, nei ekki flytja milli landa, nei, það má ekki, það er vandamálið okkar, að halda fátækum á sínum stað. Það er ekki sniðugt að flytja inn fátækt. Það er vissara að halda sig við viðskipti og fara ekki út í nánari samskipti. Það er um að gera að halda öllum leiðum opnum fyrir peningastrauminn en loka landamærunum vel og vandlega fyrir öllum sem eru ekki væntanlegir eða fyrrverandi heimsmeistarar.

Kæru hlustendur, mig langaði að gleyma þessum leiðinlegu hugsunum og mér tókst það. Í búðargluggunum blöstu við mér dásamlegir hlutir og góðar tilfinningar. Brosandi ungmenni að spjalla í síma, sennilega að leggja á ráðin um skemmtiferðir á hæfilega gömlum bílum út í guðsgræna náttúruna þar sem hægt er að senda SMS milli tjalda og yfir læki. Og nú nefni ég verslunarmiðstöðvar hallir gleymskunnar. Þangað förum við til að gleyma öllu og við gleymum okkur eins og börn, sem halda að hamingjan felist í því að fá löngunum sínum fullnægt. Ég gleymdi að kaupa vekjaraklukku, en eignaðist nýja strigaskó.

Þegar ég kom aftur út undir bert loft var eins og ég kæmist aftur til meðvitundar eftir langa svæfingu. Örlítið einkennilegur í höfðinu. Skýin höfðu gránað, sólin var horfin. Undir fótum mínum, neðan jarðar, bárust skipanir um að færa peninga af einum reikningi yfir á annan. Á fundum úti um allan heim töluðu gráalvarlegir miðaldra menn um það hvernig stemma mætti stigu við hælisleitendum sem eru eins og utan við borgarmúrana að reyna að klifra yfir. Flóttamenn ofsækja okkur og leyfa okkur ekki að sofa í friði, því þeir æra varðhundana í görðunum okkar. Hvernig reglur er hægt að setja, skynsamlegar og í anda mannréttinda, byggðar á reynslu annarra landa? Reglur sem eru eins langt frá því að segja það sem við meinum og hægt er, því það má ekki segja nema í djúpum draumi: Skjótið alla sem nálgast .

Beinar útsendingar

HLJÓÐ Í BAKGRUNNI: Skóhljóð, maður á göngu

Kæru hlustendur, þetta er bein útsending úr höfði mínu á síðdegisgöngu í Reykjavík. Það er svalt í veðri en gott skyggni og sést vel inn í íbúðir hérna við götuna, gluggar yfirleitt vel hreinir. Við skulum ganga áfram, við skulum hlusta á húsin og grípa ljóðin sem flögra um hérna í loftinu. Þarna er kveikt á sjónvarpi, já, ég sé ekki hvort nokkur er að horfa, en það er köttur ofan á því, nautnalegur á svipinn, myndflöturinn sýnir … stjórnmál, já, þetta er einhverskonar spjallþáttur, það eru þarna nokkrir karlmenn að tala. Það er dálítið erfitt að lesa af vörunum svona langt frá, ég ætti kannski að benda húsráðendum á að fá sér stærra sjónvarp? Jæja, heyrðu, þarna kom einhver auga á mig, það er best að halda áfram, fólk gæti haldið að ég væri frá Ríkisútvarpinu eða eitthvað…

Þarna sé ég þekktan speking í eldhúsi, hann er að skera niður grænmeti, sýnist mér, gulrætur kannski, og mér sýnist á andlitsdráttunum að hann sé að pæla í lýðræðinu. Lýðræði, hvað er það? Er það eitthvað? Og nú er eins og ég geti lesið hugsanir líka, og hann er að hugsa: Lýðræði … það er aldrei, það er ekki rotnandi lík, eins og anarkistarnir segja, það er ekki flokkadrættir á Alþingi eins og Alþingismennirnir segja, það er hugmynd eða markmið sem er stöðugt að breytast, alveg eins og mannréttindi. Það er einhver hugmynd um … réttlátt samfélag … einhvern veginn þannig að hver og ein manneskja sé virt … fái að vera með, fái að hlusta og tjá sig, og reynt er að ná saman. Hvernig er það, hverfur ekki allt vítamínið úr grænmetinu ef það er soðið? Gætu ekki verið bakteríur á því svona hráu, á maður að skola sveppina, eða bara þurrka af þeim moldina? Lýðræði … af hverju tölum við um lýðræði þegar allir vita að það eru auðmennirnir sem stjórna heiminum?

Ég heyri nú orð liðast hérna upp um glugga í kjallara, það er barn, stelpa, að fara með ljóð, svona kvæði, fyrr var oft í koti kátt, já, við könnumst öll við þetta. Nú fer hún aftur með það, hefur greinilega verið sett það fyrir að læra utanbókar. Fyrr var oft í koti döll, mér er alveg sama, akkuru þarf ég að læra þetta, þetta er algjört rugl.

Þarna er ungur maður í herberginu sínu að skrifa … eru þetta ljóð? Nei þetta er víst Morfís-ræða. Strákur á leið í pólitík kannski seinna, þeir eru úti um allt land að æfa sig. Ekki í samræðum eða rökræðum heldur kappræðum. En væri ekki góð hugmynd að við reyndum frekar að tala saman en sundur hér á þessu landi? Það snýst auðvitað ekki um að allir séu sammála heldur um ákveðið hugarfar. Að leggja sig fram um að hlusta og skilja það sem aðrir hafa fram að færa og svo að bregðast við því þannig að aðrir skilji hvað maður er að fara. Af hverju er þetta ekki svona? Af hverju er alltaf boðið upp á gargandi páfagauka í sjónvarpinu? Blái og rauði og græni páfagaukurinn mæta og fara með lygar og reyna að gogga hver í annan.

Heyrðu þarna er auglýsingaskilti á strætóstoppistöð. Það er vannærð stúlka að auglýsa … eitthvað … hún er með hrafnsvartan gervilit í hárinu. Vonandi hefur hún getað keypt sér hamborgara og kleinuhring fyrir launin. Ég ætla að beygja hérna, skoða þetta hverfi, ég ætla að kortleggja fjölskyldulífið, þið fáið harmleiki beint heim í stofu, ég hlusta á húsin og rýni í garðana og frystikisturnar mala. Úti hvíla jeppar lúin dekk, gluggar varpa bláum geislum út í síðdegið, ég er úthverfaskáld að safna í næstu bók. Ég held að vanti ljóð í þessa götu, dálítið af ljóðum og meðan boltinn rúllar í sjónvarpinu er barnið í kjallaranum að fara með fyrr var oft í koti kátt og krakkar léku saman en voru ekki alltof feitir og alltaf í ofbeldistölvuleikjum.

Nei, nei, þarna er nú eitthvað að gerast. Við erum að tala um stöndugt einbýli, parkett á gólfum, flísar á baði og eldhúsi, fullt af sniðugum lausnum, og í stofunni sveiflar dóttirin einhverju en faðirinn grettir sig af velmeinandi áhyggjum, og það er eins gott að ég kann varalestur og hugsanalestur, þetta eru ljóð, pabbi, ekki heróín, segir hún. Þú liggur í ljóðum allan daginn. Þú sem ættir að vera að læra, nú eða skemmta þér. Hann dreymir ekki sveppalaga ský heldur hrapandi vísitölur, lækkandi gengi, verðlausa mynt. Dóttirin sveiflar ljóðabók, það er Dagur ljóðsins, Dagur Sigurðarson, hvernig er hægt að lifa án ljóða segir stúlka í stofu og hvar ætlarðu að fá vinnu með höfuðið fullt af ljóðum, spyr áhyggjufullur faðir, í ljóðaverksmiðjunni? Eins og hann hafi ekki sjálfur ort sem ungur maður, en hann leyfði hugsunarleysinu að sigra og hefur um áratugaskeið verið illa haldinn af ljóðskorti og ljóðrænuleysi. Hann hefur reynt allt, áfengi og utanlandsferðir, dýra bíla og stærri sjónvörp, golf og laxveiðar, nokkrar kynslóðir þunglyndislyfja. En allt þetta samhengisleysi og þessi hugarsundrung er kannski aðallega afleiðing hins praktíska hugarfars sem er stórhættulegt sálinni nái það yfirhöndinni.

Og nei, ljóð eru ekki heróín en heróín er ræktað austur í Afganistan … og ég man ekki eitthvað um Afganistan … þaðan berast nú næstum aldrei fréttir eftir að jafnréttisáætlun Bandaríkjaforseta varð að veruleika … nema nú deyr fólkið úr kulda og vosbúð enda búið að sprengja göt á alla veggi og öll hús. Hvað heitir höfuðborgin í Afganistan? Kabúl. Hvað eru mörg atkvæði í hæku? Sautján. Hvað eru margir hnútar í ísfirskri sálarflækju? Pass. Einhver er að æfa hraðaspurningar fyrir Gettu betur, þar sem skiptir máli að romsa upp úr sér staðreyndum en ekki að botna í þeim. Ha, það er alltaf sama neikvæðnin í manni, jafnvel í hressandi gönguferð, en það er alltaf þetta, það er svo miklu auðveldara að leggja á minnið heldur en að hugsa vandlega, og þægilegra að setja upp keppni í sjónvarpi.

Og talandi um sjónvarp, í einu þarna er þingmaðurinn sem sagði að rannsóknir sýndu að konur hefðu minni áhuga á stjórnmálum en karlar. Það er greinilega ekki bara skortur á ljóðrænu hugarfari á Alþingi, vísindaleg hugsun kemst heldur ekki að. Hvernig er hægt að komast að þessu? Hvað eru stjórnmál? Eru það flokkar og flokkadrættir? Eru framsóknarkonur í Kópavogi undantekning? Eða er það kannski dæmi um eitthvað sem er í raun og veru ekki stjórnmál? Eru stjórnmál það sama og valdabarátta? Hafa konur ekki áhuga á því hvernig landinu og heiminum er stjórnað? Hvaða konur og hvaða stjórnmál? Hvað merkir þetta eiginlega? Eru þetta bara orð sem fá að flögra um órannsökuð, látum við þetta sem vind um eyru þjóta, eða erum við nær því að skilja dularfullt eðli konunnar: Hún hefur ekki áhuga á stjórnmálum?

Kæru hlustendur, gluggarnir varpa bláum geislum út í síðdegið, í kirkjugarðinum hlusta skáldin á lítil ferðaútvörp, ég kveð að sinni, beinni útsendingu úr úthverfi hugans er lokið, þegar ég hef talið upp að þremur smelli ég fingrunum og þið vaknið úthvíld, þið eruð hætt að reykja og þurfið ekki að horfa á sjónvarpið. Lýðræðið er ekki rotnandi lík og ljóðin verða á hvers manns vörum. Einn, tveir, þrír. (Smellur).

III.Grillhornið

Pistlar fluttir í Víðsjá í maí–júlí 2005.

Stríðið við heimskuna

Ég hef ákveðið að gangast loksins við karlmennsku minni. Ég keypti mér nefnilega grill. Nú er ég farinn að grilla. Það er fátt skemmtilegra en að standa á svölunum með grilltöng í annarri og hvítvín í hinni og horfa yfir bæinn, til hafs, til fjalla. Maður sér rithöfunda á skokki á göngustígum og hugurinn reikar við útvarpsundirleik.

Sumarið er tíminn og fyrir mig er það tími til að berjast, berjast við heimskuna, mína eigin heimsku. Ég reyni að passa að vömbin sjálf leggist ekki yfir grillið en ég væri alveg til í að grilla burt uppsafnaðan dofa sem hefur lagst á heilann í mér eftir sjónvarpsáhorf vetrarins.

Það er sem sagt hafið stríð, það er óendanlegt stríð við heimskuna. Óvinurinn er ósýnilegur og allt um kring. Stakar orrustur vinnast en stríðið er fyrirfram tapað. Ég er að tala um heimskuna í sjálfum mér, þykkt heilaspikið sem safnast fyrir ef ekki er hrist upp í og kynt undir reglulega. Nú ætla ég að reyna að hugsa skýrt, ég ætla að láta grillgufurnar leysa upp staðnaða hugsun og fylla brjóstið anda.

Mér finnst nefnilega svo hressandi að skoða og endurskoða skoðanir mínar. Mér finnst nauðsynlegt að gera mér grein fyrir því hverjar skoðanir mínar eru í raun og veru. Ég ætla að byrja á að hugsa um mál sem töluvert hafa verið rædd í fjölmiðlum undanfarið, þótt ráðamenn hafi lítið tjáð sig um þau; tvö mál, sem eru eins og tvær hliðar á sama peningi. Annað er að íslensk fyrirtæki flytja nú sum hver starfsemi sína til Kína, vegna þess að laun eru þar lág. Hins vegar er það að kínversk ungmenni voru stöðvuð á för sinni um Keflavíkurflugvöll. Ég hef fylgst aðeins með fréttum og pistlum um þessi náskyldu mál, á milli þess sem ég grilla á nýja grillinu mínu og tek bókasafn mitt upp úr kössum og raða í Billy-hillur frá IKEA.

Þar sem ég stend og ber saman humar úr Bónus og humar frá Hornafirði birtast mér grundvallarstaðreyndir málanna, sem eru grundvallarstaðreyndir um heiminn í dag, á tímum hnattvæðingar, og eru þessar tvær:

 • Fyrirtækjum er nú frjálst að flytja starfsemi milli landa og leita þannig uppi ódýrasta vinnuafl í heimi

 • Vinnuaflið hefur ekki frelsi til að flytja sig milli landa og leita þannig uppi hærri laun

 • Það er eitthvert misvægi í þessu, eitthvað sem stenst ekki í frjálsum heimi, og sú hugmynd virðist útbreidd að heimurinn sé nú nokkurn veginn frjáls. Að minnsta kosti er sagt að við, á Vesturlöndum, leggjum stund á frelsi og séum jafnvel að breiða það út um heiminn. Samt finnst okkur í lagi að semja við alræðisríki um afnot af þegnum þess, til þess að hagnast

Eins og skáldið sagði, ef ekki forsetinn sjálfur:

Þegar saman fara kínverskur sviti og íslenskt vit,
þá er ilmur af peningaseðlum í loftinu.

Ég vona að það sé ekki bara kolmónoxíðið sem talar þegar ég segi: Það er eitthvað gruggugt við þetta, eitthvað óheiðarlegt. Siðferðilegur vandi, hreinlega. Í ferðatækinu hérna úti á svölum er lögreglan á Keflavíkurvelli sífellt að bjarga kínverskum ungmennum úr klóm glæpamanna. Svo virðist sem við séum að bjarga ungu fólki frá ánauð, frá kynlífsþrælkun, kannski frá því að lenda í kláminu, sem við horfum svo á á netinu.

Það er ekki venja að fjalla í fjölmiðlum um dómsmál þannig að öll áherslan sé á því að því miður hafi ekki verið hægt að ákæra eða dæma fyrir tiltekinn glæp, í þessu tilviki mansal. En í fréttatímum var sagan einmitt sögð þannig: Að um mansal hafi verið að ræða en að glæpamaðurinn hafi sloppið, nánast vegna formgalla, á tæknilegu atriði. Meira að segja sýslumaðurinn sjálfur talaði á þessum nótum. Nú veit ég ekkert um það hvers vegna Kínverjarnir voru á leið til Bandaríkjanna á fölsuðum vegabréfum og eftir því sem næst verður komist vita menn það ekki heldur á Keflavíkurvelli.

Er það satt að við séum að bjarga ungmennum úr höndum illvirkja, eða erum við fyrst og fremst útverðir og landamæralögregla hins vestræna heimsveldis? Er hugmyndin ekki aðallega að verja bankareikninga okkar, halda atvinnuleysi og verðbólgu í skefjum?

Þetta er dálítið svipað því sem sagt var þegar nektardansinn dunaði í hverri holu í Reykjavík. Þá var mikið talað um örlög erlendra stúlkna sem neyddust til að sjá fyrir sér með því að selja líkama sinn. Á meðan þær dönsuðu fyrir syni okkar, feður og ferðamenn var mörgum þungt að sjá vesalings konurnar í þessari aðstöðu. En eftir að landið var hreinsað talar enginn um aumingja atvinnulausu stúlkurnar frá Austur-Evrópu, þær eru ekki okkar vandamál lengur. Við, útverðir siðferðisprýðinnar, höldum landinu hreinu og verslum erlendis þegar okkur vantar ódýrt vinnuafl eða kynlíf.

Þegar maður bryddar upp á samræðum í þessum dúr í grillveislum er eins gott að eiga nóg af áfengi, því grillgestir vilja yfirleitt frekar ræða um sjónvarpsþætti eða tala illa um DV og leyfa öðrum að eiga við heimsvandann. Þeir gerast óþolinmóðir og vilja svör og lausnir og meiri bjór. En hvað á þá að gera, Ingólfur, spyrja þeir. Eru ekki lág laun betri en engin? Verðum við ekki að vera samkeppnishæf? Hvað um bréfin mín í Burðarási?

Ég er reyndar með ákaflega einfalda lausn á öllum þessum siðferðilega vanda. Við opnum landamærin . Látum drauminn um milljón Íslendinga rætast. Við gætum eignast þokkalegt landslið í fótbolta.

Ég geri mér grein fyrir því að flestum þykir hugmyndin fjarstæðukennd. Gestirnir, sem á þessu stigi eru orðnir mjög soltnir og búnir með allt kartöflusnakkið, bregðast illa við, hreyta í mig ónotum og gera lítið úr grillhæfni minni og þar með karlmennsku. En ég held áfram með hugmyndina og segi: Jájá, kannski yrði þetta sársaukafullt, kannski lækkuðu þjóðartekjur, kannski þyrftu allir íbúðareigendur að taka að sér innflytjanda til hýsingar, kannski færi allt úr skorðum. Þetta mundi trufla allt okkar sjónvarpsáhorf og popptónlistarframleiðslu eða hvað það er nú sem við stöndum fyrir. En ef við tökum siðferði okkar alvarlega, ef við ætlum að halda því fram í alvöru að við göngum með kærleikanum, þá höfum ekki einu sinni val – okkur ber skylda til að taka á móti þeim sem hingað vilja koma. Annars er samúð okkar bara gríma og grillsnakk.

Nú, ég er greinilega orðinn pirraður, mig svíður í augun af reyknum, humarinn er greinilega ofeldaður, kjúklingurinn vaneldaður og kartöflunar harðar sem grjót. Ég hef haft ykkur að fíflum, kæru hlustendur, ég plataði ykkur til að hlusta með því að þykjast vera með grillþátt. Ég ætlaði að komast hjá því að verða uppnefndur besserwisser og kjaftastétt, komast frekar í hóp þeirra sem grilla í fjölmiðlum, skipta um baðinnréttingu, eða ganga í hjónaband. Ég geri aðra tilraun í næstu viku, ég næ vonandi tökum á þessu fyrir haustið. En sem sagt, það rignir og það er hvort sem er ekkert grillveður. Það verður pakkasúpa í matinn. Verði ykkur að góðu.

Ég er kostaður

Ég er hérna staddur á svölunum mínum í vesturbæ Reykjavíkur í frábæru grillveðri, ég er staddur í ljóði eftir Tómas Guðmundsson að viðbættu grilli. Það er gaman að fara með ljóð í huganum þegar maður snýr kjötinu og er farinn að sjá fyrir sér blóðrautt sólarlagið sem spilað verður á eftir og finna dásamlegan ilm af sviðnum dýravöðva. Ég veit hreinlega ekki fyrr en ég er farinn að söngla og raula lagstúf:

Úti kveikir ráðherra í vindli
verum glöð þótt olíufélögin svindli

Það fer þó ekki hjá því á slíkum unaðsstundum að ég velti því fyrir mér hvers vegna ég er í útvarpinu, en ekki bara einn með minn bjór eins og flestir aðrir. Jú, ég ætlaði víst að grilla í hlustendum, tala svo skýrt og greinilega, hafa svo mikinn hita í máli mínu að skíturinn í eyrum hlustenda bráðnaði og ég næði beinu og milliliðalausu sambandi við heilana í þeim. En svo hef ég tekið eftir því að það breytist ekki neitt. Halldór hefur ekki hringt í mig og beðið mig að hætta. Björgólfur ekki haft samband. Kannski eru engir að hlusta nema vinir mínir og jábræður. Getur verið að auglýsingar fyrir morgunkorn og þvottaefni hafi meiri áhrif á hegðun og skoðanir landsmanna en svona útvarpspistill?

Og nú sé ég hérna ofan af svölunum að ung kona með pólitískan metnað er að aka hring eftir hring hérna í hverfinu á upphækkuðum jeppa og leitar að hentugu bílastæði. Ég sé að henni finnast göturnar of þröngar og hún vildi gjarnan sjá fleiri mislæg gatnamót í miðbænum og stærri og fleiri og ódýrari bílastæði. Og hún getur beitt sér fyrir þessu, hún gæti komist í nefndir, eða hún gæti fengið sér minni bíl, en það mundi reyndar hefta frelsi hennar til að aka erfiða slóða meðfram laxveiðiám landsins. Náttúrunnar er best notið úr stórum jeppa.

Flest lögum við okkur að umhverfinu. Við kaupum það sem við treystum okkur til að borga, núna eða í framtíðinni með mikilli vinnu og hærri launum. Við höldum bara framhjá í laumi og tölum ekki illa um stjórnvöld nema í góðra vina hópi. Við lærum að segja: Ja, svona er þetta bara og þú veist hvernig þetta er, þegar við lesum og heyrum af því að nokkrar manneskjur hafi eignast ríkisfyrirtæki fyrir lítið, að gömlum stjórnmálamönnum sé raðað í vellaunaðar opinberar stöður og að olíufyrirtækin brjóti lög án þess að skammast sín fyrir það.

Þá förum við kannski með laufléttar ljóðlínur, sönglum yfir grillinu:

Úti kveikir ráðherra í vindli
verum glöð þótt olíufélögin svindli

Og það er ákaflega freistandi að gleyma því að ástandið, þjóðfélagið, heimurinn er ekki í einhverju náttúrulegu eða eðlilegu ástandi. Það er að segja, auðvitað er hann það, en hann gæti líka verið öðruvísi, hann var ekki svona, og hann verður ekki svona, og hann er reyndar ekki svona.

Til dæmis mætti halda að Afríka sé fátæk heimsálfa af náttúrunnar hendi. Að lífsskilyrði séu þar erfið, trúarbrögðin furðuleg og fólkið spillt, ef ekki beinlínis heimskt. Ef maður á að trúa fréttum þá erum við Vesturlandabúar bara í stöðugum vandræðum með að þurfa alltaf að vera að bjarga þessum aumingjum. Staðreyndin er hins vegar sú að eymd Afríku er að miklu leyti afleiðing pólitískra ákvarðana. Og nú er ég ekki einu sinni að tala um þrælaverslun og kúgun nýlendutímans, heldur til dæmis bara það að olíufélagið Shell pumpar upp olíu í Nígeríu á meðan íbúar allt í kringum dælurnar búa við menguð vatnsból, ónýtt ræktarland og sára fátækt. Þeir sem mótmæla eru hengdir. Í nóvember verða tíu ár liðin frá því að níu manneskjur voru hengdar fyrir það að benda á að Nígería væri auðugt land og að þegnar þess ættu rétt á hluta auðsins. Þeir voru ekki að biðja um björgun heldur réttlæti. Og rétt er að geta þess að Shell heldur áfram að græða á olíunni. Þið vitið hvernig þetta er.

En hér hefur enginn verið hengdur fyrir útvarpspistil, okkar þjóðfélag virkar ekki þannig, það er í mesta lagi talað illa um mann á netinu í nokkra daga og svo búið. Hér eru listamenn ekki hengdir, þeir eru keyptir. Listahátíðir og leiksýningar eru borgaðar af bönkum. Silfurhærðir úthverfabúar, ómenntað háskólafólk á jeppum með virta starfstitla, fá tækifæri til að njóta kampavíns og ögrandi sýninga, taka í hendur framsækinna listamanna og komast hugsanlega í „hverjir voru hvar“-dálka blaðanna. Það næsta verður að þessi pistill verði kynntur sem þjóðfélagsgagnrýni í boði Björgólfs. Það verða auglýsingar í ljóðabókum, veðurfréttir kostaðar af fjarskiptafyrirtækjum … nei bíddu við, það nú þegar orðið.

List er semsagt skraut, það hljóta að vera skilaboðin, list er fyrir alla, hún er holl og góð og jafnvel megrandi. Og maður er farinn að skilja af hverju Steinar Bragi segist vera hættur að skrifa. Hann sagði í viðtali í þessum þætti að hann sæi það núna, skrif hans breyttu engu í heiminum. Kannski á það sama við um pistla í Víðsjá. Það hefur sennilega enginn reynt að kaupa Steinar Braga og enginn hefur reynt að kaupa mig. Og það er einmitt öruggasta merkið um að maður skipti ekki máli í kapítalísku samfélagi. Því ef eitthvað er eitthvað þá tekst einhverjum að finna leið til að umbreyta því í peninga. Og niðurstaðan er þá sú að ljóðlist sé ómerkilegasti hlutur allra hluta. Enginn treystir sér til að kreista peninga úr ljóðum. Þau eru ekki einu sinni sandkorn í eldsneytisleiðslum markaðsvélarinnar. Og ef ég væri bjartsýnismaður myndi ég núna snúa dæminu á hvolf og segja að einmitt þess vegna séu ljóð svona mikilvæg, að ljóð séu hættuleg markaðskerfinu vegna þess að þau eru ekki peninga virði. Ég veit að minnsta kosti að ljóð eru sumum mikils virði.

En semsagt, ef þú vilt breyta heiminum skaltu hætta að yrkja og hvað, ég veit það ekki, grípa til vopna eða bjóða þig fram. Svo mikið er víst að lítið er unnið með einhverju grilltuði og neikvæðni, það heldur það enginn út til lengdar og breytir engu. Ég er samt að reyna að grilla aðeins í ykkur, hugsanlega fólki, sem vill bara grilla mat úti í garði á kvöldin með fjölskyldu og vinum í stað þess að sækja baráttufundi æsingalýðs. Ég er að reyna að brjóta niður skelina svo þið gleymið því ekki að þið eruð frjálsar verur en ekki fiskar inni í skel. Ég vara einfaldlega við því að þið látið auglýsingar, bíómyndir, fréttir og biblíur segja ykkur hvernig heimurinn er og þið eigið að vera. Ég mæli ekki með því að ganga í stjórnmálaflokk, ég mæli ekki með hlutabréfum. Ég mæli ekki með upphækkuðum jeppum, en ég mæli með hækum og öðrum ljóðum. Ég minni á að þótt sólin sé hátt á lofti og grillað sé á hverri hæð þá er enn tími til að lesa bækur, tími til að sjá heiminn á nýjan hátt, þennan undarlega heim, minni á að tíminn er naumur og mál að við stöndum uppréttir, upp með þig – það er glas, farðu að grilla og yrkja.

Næst skaltu ekki láta þér bregða þótt silfurhærður ráðherra eða athafnamaður hringi í þig um miðja nótt, með vindil í hendi og segi:

Að lesa ljóð eftir þig er eins og að aka bíl um niðdimma nótt, yfir fáfarna heiði í rigningu.

Nú er klukkan að verða sex, ég hef fært ykkur mikil tíðindi, eða ég hef vonandi stytt nokkrum grillurum stundir.

Í tilefni af sigri vorum

Góðir Íslendingar. Mennirnir eru jafn ólíkir og þeir eru margir. Á þessum orðum hófst 17. júní-ræða forsætisráðherra. Og vissulega eru engir tveir menn alveg eins, en þó eigum við flest eitthvað sameiginlegt. Skynjun fólks og skoðanir eru margvíslegar, en við tengjumst engu að síður, við tölum saman, við hlýðum á ræðu Halldórs Ásgrímssonar og teljum okkur skilja nokkurn veginn hvað hann er að fara. Og nú hef ég nefnt um það bil það eina í ræðunni sem ég er að einhverju leyti sammála. Ætli ég haldi þá ekki áfram að tala um þetta á meðan ég leyfi grillinu að hitna, og jú, þarna sé ég glitta í gasloga undir grjótinu, það eru glæður í grillinu, ég sé ljós í myrkrinu.

Staðreyndirnar sjálfar, veruleikinn og orðin sem við notum til að lýsa honum eru einhvern veginn samvaxin og verða ekki aðskilin nema að hvorutveggja glatist. Sumir sjá sig í dýrðarljóma, sem hluta af kröftugri og öflugri þjóð, þar sem velsæld ríkir. Þeir telja sér jafnvel trú um að það sé vegna framúrskarandi eðliseiginleika þjóðarinnar og stjórnvisku yfirvalda. Aðrir telja kannski að það sé ósmekklegt að stæra sig af betri kjörum og skilyrðum en aðrir búa við. Þeir sjá það fremur sem einhvers konar heppni að Íslendingum hefur verið hlíft við stríðum og eru nú ríkir og feitir. Þeim verður ef til vill hugsað til þeirra sem ekki eru eins heppnir og þeir, hinir óheppnu eru víst miklu, miklu fleiri.

Ég er mótfallinn því að við eigum að sækja félagsskap til jákvæðra bjartsýnismanna. Ég er á því að reyna að sjá staðreyndirnar dálítið skýrt og greinilega, eins vel og hægt er, og að reyna að ráða í merkingu þeirra, eins og vel og hægt er. Markmiðið er skilningur, en ekki vellíðan. Maður lýgur iðulega að börnum, maður gefur þeim til kynna með orðum og látbragði að allt sé í lagi. Þetta verður allt í lagi, segir maður, jafnvel þó að maður viti ekkert um það. Á maður að halda áfram að ljúga því að sjálfum sér og öðrum að allt sé í lagi, að heimurinn sé skiljanlegur og fyrirsjáanlegur, á maður að láta sem við lifum í einu endalausu dásamlegu núi, eins og sex ára barn?

Ættum við ef til vill að endurskoða sögubækur og fréttir, hafa þær meira „feel-good“, eins og það er kallað, ættum við að skrifa þær með það fyrir augum að okkur líði vel við lesturinn? Að við getum lesið þær fyrir börnin, getum sest með barn í fanginu í djúpan stól við arininn með heitt kakó og komist í sæluvímu?

Flestir sem taldir eru fulltrúar fyrir svonefndan póstmódernisma eiga sameiginlegt að setja spurningarmerki við tengsl orða og hluta. Orð vísa ekki til raunverulegra hluta, eða svo allir fyrirvarar séu í lagi í þetta eina sinn: Tengsl orða og raunveruleika eru ekki einföld eða gefin. Til dæmis hefur sá sem talar oft markmið sem eru ekki augljós í textanum sjálfum, það býr eitthvað að baki. Og nú koma sænskir vísindamenn með frábært dæmi. Þeir hafa komist að því að lyfleysa geti létt kvíða, auk þess að lina þjáningar. Þetta las ég í fréttum og er einfalt dæmi um það hvers orð eru megnug, það skiptir máli hvað það heitir sem maður gleypir. Það skiptir máli fyrir stjórnmálamenn hvernig almenningi líður og því reyna valdhafar í ræðum sínum að tala um það sem er gott, eða tala eins og það sé gott. Það er dálítið skemmtilegt að Halldór Ásgrímsson skuli vísa svona til sinnar eigin ræðu, hann segir að menn eigi að hlusta á þá sem líta á björtu hliðarnar, því það „láti okkur líða vel,“ og svo gerir hann einmitt það, nefnir það sem hann telur gott en sleppir því að ræða um óþægilega hluti. Ef við grípum til líkingamáls gætum við sagt að með því að halda bjartsýnisræðu sé ráðherra að gefa þjóðarlíkamanum lyfleysu.

Já, það skiptir svo sannarlega miklu máli hvernig talað er. Ráðherra sem er slyngur ræðumaður, orðslyngur ráðherra, er vissulega hættulegri en hinn sem ekki er jafn flinkur. Í bókinni 1984 eftir George Orwell er því lýst hvernig snúið er upp á tungumálið, hvernig valdið nýtir sér mátt orðanna til að hafa áhrif á veruleikann. „Stríð er friður,“ „frelsi er þrælkun“ og „vanþekking er máttur“ eru einmitt slagorð úr þessari bók. Og manni verður ljóst að stjórnmálamenn, þeir sem ráða í dag, hafa greinilega lært af Orwell. Er ekki einmitt verið að telja okkur trú um að friður fáist með stríði? Eigum við að uppfæra frasann: Innrás er lýðræði. Er ég nú orðinn einn úrtölumanna, einn af þeim sem sjá myrkrið í deginum? Og hvernig á að skilja ákall ráðherrans um að við séum ekki með neikvæðni og niðurrif? Eigum við að gleyma því að við styðjum stríð? Eigum við bara að hugsa um sjálf okkur? Er vanþekking máttur?

Já, Halldór skiptir mönnum í tvo flokka: Það eru þeir sem sjá myrkrið í deginum og þeir sem sjá ljósið í myrkrinu. Ég held reyndar að hann hafi ekki ætlað sér að halda því fram að hér sé myrkur, hann hefur sennilega átt við þá sem sjá ljósið í deginum. Því hér er svo sannarlega dagur, endalaus bjartur dagur, endalaust grill, og ég geri ekki lítið úr því. Ég tuða ekki yfir rigningu eða reikningum. En ég leyfi mér að reyna að sjá og skynja skýrt og greinilega og ég er ekki sammála stjórnvöldum um það hvað beri að gera. En í ræðu sinni reynir forsætisráðherra að gera þá sem ekki eru sammála að leiðindapúkum. Þannig reynir hann að draga bitið úr gagnrýni, þannig slettir hann sínu skyri yfir þá sem ekki fylgja honum að máli.

Kæru hlustendur, ég veit að þessi pistill er ekki fyndinn. Hann er ekki þrunginn kaldhæðni, ég er að reyna að segja hlutina nákvæmlega eins og þeir eru, ég er að reyna að skilja ræðu Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, vegna þess að ég veit að á bak við orðin eru markmið og saga. Ég veit að þau eru vopn og að þau skipta miklu máli. Þess vegna er svona lítill hálfkæringsbragur á þessum pistli. Ég sleppi því til dæmis alveg að gefa það í skyn að það búi póstmódernisti í Halldóri Ásgrímssyni.

En nú er grillið orðið heitt, við njótum birtu hins endalausa dags, en ég reyni að láta það ekki rugla mig, ég trúi samt ekki á skyndilausnir, ég sé ekki að það bjargi þjóðarhag að reisa álver, mig dreymir ekki um að vinna í lottó, það er eitthvað grunsamlega auðvelt við að ráðast inn í ríki og koma á lýðræði. Það er eitthvað rangt við að arðræna fólk, jafnvel þó að það búi langt í burtu. En ég forðast að horfa beint í sólina svo hornhimnan brenni ekki til ösku. Ég læt ekki grilla í mér heilann.

Kynlegt eðli

Þolinmæði er nauðsynleg hverjum grillara. Kartöflur taka, svo dæmi sé tekið, að því er virðist óendanlega langan tíma að grillast, og margir þekkja fiðringinn og spennuna sem fylgir því að borða hálfblóðug kjúklingalæri. Skyldi maður sleppa í þetta sinn? Er ekki hægt að lækna flestar magasýkingar? Og nú veit ég ekki hvað höfundar klisjubókanna segja, en mig grunar að þolinmæði sé frekar talin til kvenlegra dygða fremur en til karlmennsku. Alvöru karlmenn taka á málunum af festu og án þess að hika. Þeir drífa í því að segja óvinum stríð á hendur í stað þess að dútla í einhverjum samningum. Þeir grilla almennilegt kjöt en láta konurnar um salatið.

Er ég að lýsa náttúrulegum eiginleikum karlkynsins, eða eru þetta hugmyndir sem þróast og breytast með tímanum? Ég veit það auðvitað ekki alveg, en hitt er alveg víst að þetta á misvel við um einstaka karlmenn og konur líka. En vissir eiginleikar og hegðun hafa á sér einhvers konar karlmennskublæ og aðrir eru kvenlegir. Orð eins og harður, virðulegur og traustur eru frekar höfð í jákvæðri merkingu um karlmann á meðan tillitssöm, samviskusöm og liðleg þykja eðlilegar umsagnir um konu. Ég gæti haldið áfram. Ég gæti nefnt að það þykir nokkuð eðlilegt að stúlkur hugsi mikið um útlitið, eltist við tísku og reyni að vera mjóar og reyndar er líka til þess ætlast að þær séu samviskusamar í skólanum. Strákar verða hins vegar að gæta sín á því að sýnast hæfilega kærulausir og forðast að virka hommalegir. Reyndar mætti greina hlutverk og staðalmyndir ungs fólks aðeins nánar, því það er oft boðið upp á fleiri en eina tegund af strák eða stelpu sem hægt er að tilheyra. Fjöldi, eðli og einkenni hópanna fer svo eftir félagslegu umhverfi á hverjum stað og tíma.

Og nú er ég ekki að segja að allt sé í föstum skorðum og að þetta eigi við um alla. Margar stelpur og strákar eru sjálfstætt og sterkt fólk sem þorir að vera eins og því er eðlilegt, þó að það skeri sig nokkuð úr. Og ég er ekki að segja að það liggi beinar refsingar við því að gangast ekki við staðalmynd. En samfélagið er gegnsýrt af lífseigum hugmyndum um eðli kynjanna. Það hvernig talað er um hlutina, frasar og orðalag, jafnvel brandarar, safnast saman og þvingar okkur á dálítið lúmskan hátt í ákveðin hlutverk. Við erum öll bæði mótuð af þessu tali, en höfum líka tækifæri til að hafa áhrif á það, bæði til að breyta eða festa enn betur í sessi. Það er stutt milli þess að segja til dæmis leyfum strákum að vera strákar og að gefa frá sér þau skilaboð að strákar eigi að vera eins og strákar hafa verið eða eins og við teljum að strákar eigi að vera.

Ég er að stinga upp á því, til dæmis, að í staðinn fyrir að konur fari í auknum mæli að sækjast eftir yfirvinnu, þá ættum við að haga samfélaginu þannig að fólk þurfi sem minnst að vinna yfirvinnu.

Tilefni þessa pistils er að nokkuð hefur verið talað um jafnréttismál að undanförnu. Helst er að heyra að allir séu sammála um að það beri að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu, menntun og starfsaldur. Sem er sjálfsögð krafa, en nær allt of skammt og felur ekki í sér jafnrétti í reynd, jafnan rétt fólks til að njóta sín og starfa í samfélaginu á sínum eigin forsendum, þar sem þeirra eigin hæfileikar nýtast og njóta sín. Og reyndar hafa margar mismunandi tölur verið settar fram um launamun kynjanna. Sumir segja muninn ýktan og að hann megi þá útskýra með því að konur fælist yfirvinnu og ábyrgðarstöður og séu ekki nógu duglegar að sækja sér launahækkanir. Og þar með hefur ástandið verið skilgreint sem náttúrulegt og eðlilegt, óumbreytanlegt. Lausnin er þá sú að konur fari að herða sig, standi sig í þessari samkeppni um laun og stöður, nú eða haldi áfram að bera þungann af barnauppeldi og heimilishaldi og sætti sig við lægri tekjur.

Þessi mynd er reyndar of einföld. Karlmenn eru misjafnir og sumir þeirra vilja frekar vera með börnum sínum, eða sinna einhverjum hugðarefnum, en að vinna endalausa yfirvinnu eða að sækjast eftir auknum starfsframa. Stundum eru þeir nefndir mjúkir menn og það er líka nokkuð algengt að litið sé á þetta val sem fremur ókarlmannlegt. Og svo eru auðvitað til konur sem komast til metorða í fyrirtækjum og opinberum stofnunum. Þær konur eru reyndar tiltölulega oft teknar í viðtöl í blöðum og leggja þá iðulega áherslu á að þær hugsi ekki um sig sem konur sérstaklega. Þær hafa yfirleitt komist í háar stöður einmitt með því að tileinka sér þessa samkeppnishörku sem þykir karlmönnum eðlileg.

Það mætti því stundum halda að jafnrétti felist í því að allir hafi jafnan rétt til að keppa um laun og metorð innan þess kerfis sem hér ríkir. Allir hafi jafnan rétt til að vera með í sama leiknum. En eigum við ekki stundum að spyrja okkur hvort þetta sé endilega rétti leikurinn eða hvort við eigum ekki að leyfa fólki að leika sér meira eftir eigin höfði? Ég vel þessa leikjalíkingu vegna þess að mér finnst þetta minna á leikfimitíma í grunnskólanum. Á alltaf að vera fótbolti? Er ekki hægt að leyfa þeim sem vilja að gera eitthvað annað?

Það sem ég á við er að raunverulegt jafnrétti og frelsi hlýtur að felast í því að hver og einn fái að blómstra á sínum eigin forsendum. Þannig ætti það að vera lifandi og raunverulegur möguleiki fyrir konu eða karl að lifa sæmandi lífi sem til dæmis leikskólakennari eða þroskaþjálfi, eða á verkfræðistofu eða í banka, en þannig að ekki sé krafist yfirvinnu. Og það hlýtur að vera mikils virði á flestum vinnustöðum og í félagsstarfsemi að fjölbreyttar hugmyndir komi fram og að þar sé fólk með margs konar reynslu og hæfileika. Það hlýtur að vera meiri sköpunar- og aðlögunarkraftur í slíku samfélagi. Frábærar hugmyndir og ný þekking verður nefnilega oft til í virkri samvinnu og samræðu milli fólks með mismunandi bakgrunn. Hvað mundi fólk segja ef í ríkisstjórn væru nánast eingöngu karlmenn á svipuðum aldri, sem allir hefðu gengið í sömu skóla og búið á sama stað? Og það er ekki síður þörf á góðu og fjölbreyttu starfi í skólum og í annarri almannaþjónustu heldur en í fyrirtækjum. Við verðum því að bera virðingu fyrir slíku starfi og launa það eftir því.

En ég er kominn út í flókin mál og get ekki rætt útfærsluleiðir í smáatriðum. Við vitum samt að það er vel hægt að gera samninga og setja lög og reglur um til dæmis vinnutíma, og það er hægt að jafna laun með hærri sköttum og þau gætu verið opinber. Þetta er fyrst og fremst spurning um það hvað við viljum. Ég er fyrst og fremst að reyna að koma því á framfæri að núverandi staða er ekkert náttúruleg, henni er hægt að breyta. Það er að vísu nokkuð erfitt, sérstaklega vegna þess hve frjálshyggjumönnum hefur tekist vel að telja okkur trú um að svona verði þetta bara að vera. Að það sé gott og eðlilegt að atvinnurekendur hafi öll bestu spilin, að allir verði að keppa á móti öllum á svokölluðum frjálsum markaði. Eins og að samvinna og samráð séu ekki í mannlegu eðli líka.

Ég kalla það hvorki frelsi né jafnrétti að allir séu þvingaðir til að keppa í sama leiknum. Og nú leyfi ég konunni minni að grilla. Ég vaska svo upp á eftir.

Hrein samviska til sölu – tilboð óskast

Góðir hlustendur. Þetta hefst í Afríku, þar sem kaffibaunirnar í kaffinu mínu eru ræktaðar. Þar eru þær tíndar af trjánum og kaffibóndinn fær víst lítið sem ekkert fyrir og þeir sem vinna fyrir hann fá enn minna. Risafyrirtæki kaupir baunirnar og einhvers staðar eru þær brenndar og malaðar og þeim pakkað inn í álpoka. Myndskeið sem sýna fallegt fólk í spaugilegum aðstæðum renna í sjónvörpum og mælt er með tegundinni í tímariti sem ætlað er ungu meðvituðu menntafólki með fágaðan smekk. Að lokum bý ég til espressó í rokdýru vélinni minni, stolti eldhússins. Ég heiti Ingólfur og er eins konar vél sem framleiðir pistla úr kaffi.

Ég er hér mættur til að grilla, grilla kerfið, grilla allt sem gott er, grilla nýgræðinginn, lamb á grillið er hektari af grónu landi. Úrtölur og undirróður, en fyrst og fremst játningar. Ég ætla mér að játa allt, það er svo gott fyrir sálina, ég játa og mér líður betur. Það virkar betur að játa en að ákæra. Við skulum játa:

Við viljum ekki smánarlaun hér á landi, við viljum ekki klámiðnað hér á landi, við viljum ekki álbræðslu hér á landi, við viljum ekki herinn hér á landi, við viljum ekki landið okkar á lista yfir þá sem styðja stríð, við viljum ekki fíkniefni hér á landi, við viljum ekki sorpblaðamennsku hér á landi.

En við skulum líka játa að við kaupum þrælaframleiðslu, við kaupum klám, við ferðumst í fljúgandi áldósum, við hirðum peninga af bandaríkjaher, við lesum framhjáhaldsfréttir af frægu útlensku fólki í hinu heilaga Morgunblaði með morgunkaffinu og kippum okkur ekki upp.

Svona, nú líður okkur betur, nú getum við grillað áhyggjulaus, hrein og saklaus. Alþjóðamál, það er bara of stór biti, við setjum hann ekki á venjulegt grill, við getum ekki grillað ofan í allan heiminn. Nei, samt er eitthvað ennþá, einhver innri ófriður. Kannski er þetta bara málamyndastríð, óraunveruleg barátta, sett upp af áróðursdeild í heilanum, endalaust stríð sem tryggir innri frið. Snýst þetta bara um að vernda hreina sjálfsmynd eða er ég tilbúinn að taka afleiðingum raunverulegra breytinga? Höfum við á Íslandi einhvern sérstakan rétt á náttúruparadís þegar heimurinn er að kafna í fýlu?

Það er dásamlegasta afrek alþjóðakapítalismans, að allir eru samsekir og enginn ber í raun og veru neina ábyrgð. Ekki er hægt að áfellast fólk fyrir að sækja sér viðurværi, ekki fordæmi ég venjulegt fólk fyrir að reisa börnum sínum öruggt skjól og velja þeim hið besta fóður. Ekki get ég gagnrýnt rithöfunda fyrir að skrifa auglýsingar og umsagnir um hina ýmsu neysluvöru sem gaman og sniðugt er að prófa. Ekki get ég gagnrýnt valdamenn fyrir að færa fólkinu það sem vill og það sem það nennir ekki að mótmæla. Ekki get ég ásakað fyrirtækin fyrir að selja okkur nákvæmlega það sem okkur langar í, á því verði sem við erum tilbúin að borga. Meira að segja harðorðir pistlar og róttæk list sogast inn í þetta magnaða kerfi, sem ég kalla kapítalisma – ég veit ekki hvað annað ég á að kalla það. Ef maður öskrar á kerfið þá kaupir það af þér öskrin, meltir þau og kúkar peningum. Og ég er hér til að segja: Þetta er ekki í lagi, þetta er ekki í lagi, þetta er ekki í lagi. Sama hvað þeir segja þér, þetta er ekki í lagi. Og þetta er lægsta röddin í frumskóginum. Eða þetta er kannski frekar eina röddin, og það er enginn að hlusta því öll hin dýrin hafa verið keypt og flutt í dýragarð. Þeim var einfaldlega öllum gert tilboð sem þau gátu ekki hafnað. Og þetta hef ég eftir einum vini mínum, að kapítalisminn á Vesturlöndum stjórnar ekki með hótunum og þvingunum heldur með því að gera þér stöðugt tilboð sem þú getur ekki hafnað.

Og nú líður mér eins og ég sé kominn í hring. Ég hef gengið þvert á sjálfan mig og ætlun mína með þessum pistli, ég hef enn og aftur hvítþvegið sjálfan mig með því að benda á kapítalismann sem sökudólg; þetta er kerfið ógurlega sem enginn getur sigrað, af því að kerfið er bara við sjálf og það er ekkert kerfi sem slíkt.

Ein af sárari þversögnum þessa heims er að á meðan framleitt er miklu meira en nóg af öllu í heiminum skuli meirihluti mannkyns búa við skort og fátækt. Það er svo aukaþversögn að þetta gefi auðugum poppurum tilefni til að syngja fyrir vel stæða millistétt og að sjónvarpsstöðvar noti tónleikana til að selja auglýsendum áhorfendur.

Um helgina var sjónvarpið sem sagt undirlagt poppurum. Þeir voru að spila á tónleikum sem ætlað var að vekja athygli almennings á fátækt í heiminum og að þrýsta á ráðamenn í stærstu iðnríkjum heims að gera eitthvað í málinu. Afríka var í laginu eins og gítar. Og ekki skal ég kvarta yfir góðum tónleikum en mér hefði reyndar fundist viðeigandi að eitthvað væri rætt um hið eiginlega mál sem liggur að baki. Hvað á að gera í því? Hvernig hjálpar rokkið?

Ráðamenn stórveldanna keppast nú við að sannfæra okkur um að þeir séu nú alveg sammála, við séum öll saman í þessu. Bill Gates flutti ræðu, Baugur styrkti, Bush segist gera það sem hann getur. Eru þetta ekki bara leiktjöld? Er það trúlegt að stjórnvöld, stórfyrirtæki og almenningur séu allir á sama máli, hafi sömu sýn og sömu markmið? Réttlæti á jörð. Er Bill Gates hinn nýi Che? Kannski að við ættum að rifja upp örfáar staðreyndir áður en við lýsum yfir fullnaðarsigri.

Hernaðurinn í Írak hefur nú kostað Bandaríkin um það bil 180 milljarða dollara. Ef við færum þessa upphæð yfir á íslenskar krónur þá eru þetta satt að segja meira en tíu þúsund milljarðar. Þetta er fjórföld sú upphæð sem á nú að gefa eftir af skuldum fátækra ríkja og reyndar er þetta jafnt helmingnum af öllum skuldum allra Afríkuríkja. „Dýr er Saddam allur,“ gæti manni dottið í hug og það er merkilegt að í þessum heimi, í þessu fullkomna markaðskerfi, skuli hvílíkum auðlindum, tíma og orku milljóna manna sóað í hernað og vopnaframleiðslu. Og þá er ég að tala um okkur, hin friðelskandi Vesturlönd.

Í stað þess að tala um þetta, í stað þess að hugsa um þetta, fáum við popptónleika og ég veit satt að segja ekki hvað ber að gera. Þetta er ekki prédikun, heldur játning; ég boða engar lausnir og veiti ekki syndaaflausn. Það virðist ekki gagnast að ata menn skyri eða öskra: Ég ákæri. En ég veit ekki nema það sé innantóm blekking að reyna að vinna með þeim sem ráða, syngja dálítið og reyna að fá þá til að gefa aðeins eftir, lækka tollamúrana og skuldirnar.

En ég ímynda mér að heiðarleiki geti verið skref, ef við horfumst í augu við sjálf okkur. Það væri hugsanlega framför. Og þá verður ekki komist hjá því að ræða mál málanna á Íslandi í dag, stóra sorpblaðamálið. Og nú ætla ég að reyna að komast hjá því að vandlætast því ég sé tækifæri fyrir þjóðina að líta aðeins í eigin barm. Því kannski er það lærdómurinn af málinu öllu saman, að við eigum erfitt með að horfast í augu við sjálf okkur og allt okkar slúður. Við njótum þess að hneykslast heima hjá okkur og ef til vill á kaffistofum, og erum nú í uppnámi vegna þess að það er búið að afhjúpa þjóðina. Við veltum okkur upp úr slúðri og hneykslumst svo á þeim sem selja það. En það er kominn tími til að horfa frá skráargötum fræga fólksins. Ég legg til að þið byrjið á að rífa niður skiltið sem hangir á veggnum í stofunni, þar sem stendur: Vinsamlegast ræðið ekki hinn ytri heim.

Að hugsa um samhengið

Eftir því sem árin líða verða mér ljósari veikleikar mínir. Ég sé betur og betur hvað það er stutt á milli þess að vera heilagur og saklaus og þess að fremja ódæði. Það þarf ekki meira en vissar aðstæður og athugunarleysi. Það þarf eiginlega ekki meira en að leyfa sér að hugsa ekki of mikið um hlutina, vinna sína vinnu og framfylgja skipunum. Hvað ef ég hefði verið flugstjórinn á Enolu Gay? Hefði ég átt að óhlýðnast og sleppa kjarnorkusprengjunni í sjóinn og spara þannig meira en sextíu þúsund saklaus mannslíf? Eða var þetta kannski eitt af þessum réttlætanlegu fjöldamorðum, þeim sem framin eru í nafni frelsis og lýðræðis? Eiga Írakar eitthvað frekar skilið að deyja en íbúar Lundúna?

Fyrir rúmum tveimur árum var ég staddur í miðborg Lundúna ásamt meira en milljón öðrum manneskjum til að mótmæla því að ráðist yrði á Írak. Ég bjó í borginni einn vetur og mér hefur hvergi annars staðar í heiminum fundist ég vera jafn mikið meðal manna, einn af íbúum jarðarinnar. Á fáum stöðum finnur maður minna fyrir því að vera aðkomumaður, það eru allir heimamenn í London. Þar eru töluð þrjúhundruð tungumál, þar eru söfnuðir allra trúarbragða. Það er eitthvað einstaklega óviðeigandi við það, að slátra venjulegu fólki í þessari borg borga þar sem manneskjur af öllum kynþáttum og uppruna lifa saman, þótt morð á saklausu fólki séu alltaf röng. Og það er ekki rétt að svara morðum á saklausu fólki með fleiri morðum á saklausu fólki.

Það er hins vegar rangt að loka á hugsunina og full ástæða til að greina atburðina, einkum til þess að geta komið í veg fyrir endurtekningu. Við verðum að skilja ástæðurnar og getum ekki leyft okkur að líta svo á að um sé að ræða einhvers konar yfirnáttúruleg og óskiljanleg öfl. Árásarmennirnir eru einmitt bara menn eins og ég og þú og þeir hafa sínar ástæður og hvatir.

Ég ætla að ræða aðeins um manninn sem er að miklu leyti talinn bera ábyrgð á hryðjuverkum í nafni al-Kaída. Það er nefnilega alveg örugglega ekki rétt að stríð hans sé gegn frelsi eða lýðræði eða lífsháttum á Vesturlöndum. Ég veit auðvitað ekki hver eru markmið Osama bin Laden, en ég veit hvaða kröfur hann hefur sett fram. Þær hafa ekki farið hátt í fjölmiðlum, einkum vegna þess að stefna okkar er að semja ekki við hryðjuverkamenn og hlusta ekki á þá. Þess í stað er okkur talin trú um að þeir hafi skyndilega fengið þá hugmynd að fremja hryðjuverk til að vinna á frelsi á Vesturlöndum og jafnvel að snúa okkur til Islam.

Kröfur Osama eru einfaldlega þær að Bandaríkin og Vesturlönd fari með allt herlið sitt úr löndum múslima og að þau hætti að styðja Ísraelsríki. Kveikjan að baráttu hans var, að hans sögn, innrás Ísraels í Líbanon árið 1982, sem var studd af Bandaríkjastjórn. Talið er að um 17.000 borgarar hafi fallið í þeirri innrás. Og ég neyðist til að ítreka, þó að ég ætti ekki að þurfa þess, að þetta er engin réttlæting, eða það sem dómsmálaráðherra nefnir afsökunarskýringu. Þeir sem trúa því að best sé að svara morðum á saklausu fólki með morðum á fleira saklausu fólki eru þeir einu sem sjá réttlæti í hefndinni. Og í þeim hópi er ekki bara Osama bin Laden heldur líka George Bush.

Talsmenn gleymskunnar, eins og dómsmálaráðherra, láta sem að hryðjuverkin í Lundúnum tengist ekki stríðinu í Írak. Þeir frábiðja sér afsökunarskýringar og segja, og nú les ég orðrétt af bloggi Björns Bjarnasonar:

Hvað var að gerast í Írak, sem réttlætti árásina 11. september 2001? Ekkert.

En eins og Birni er fullkunnugt um þá fóru Bandaríkin í stríð við Írak árið 1991 og það var gert frá Sádi-Arabíu, en bandalag Sádi-Arabíu og Bandaríkjanna hefur frá upphafi verið meginástæða fyrir baráttu Osama og hans manna. Þetta veit ég og er þó enginn sérfræðingur. Og hvernig stendur þá á því að Björn man ekki eftir þessu? Ég verð að viðurkenna að mér varð enn og aftur hugsað til bókarinnar 1984 eftir Orwell, en í þeirri bók vinnur söguhetjan við að endurskrifa fortíðina. Stóri bróðir rekur semsagt gríðarlegt ráðuneyti, þar sem hópur fólks vinnur við að breyta bókum, dagblöðum og kvikmyndum í því skyni að uppfæra söguna, þannig að það verði aldrei nein saga. En Orwell gengur eiginlega allt of langt, það þarf ekkert að breyta gömlum dagblöðum eða bloggfærslum, það man enginn neitt hvort sem er.

Ég er ekki að tala um þetta til að ná mér niðri á Birni Bjarnasyni, sem notar tækifærið á heimasíðu sinni til að minna á að hann hafi unnið kalda stríðið. Hann man þó eftir því. Nei, hryðjuverkamenn hafa sínar ástæður og við getum gert betur í baráttunni við þá en að ráðast með hernaði á fleiri lönd. Að útskýra er ekki að afsaka, að gagnrýna er ekki að gefast upp.

Og hvað ber þá að gera? Það er einföld staðreynd að það er ekki hægt að tryggja neitt með hundrað prósent öryggi. Fleiri sprengja í vestrænum borgum en múslimar, eða eru allir búnir að gleyma því? En fyrst við erum að hugsa um al-Kaída þá er ekki úr vegi að íhuga nokkur atriði.

Hryðjuverkamenn þurfa að búa einhvers staðar, þeir þurfa að borða og þeir þurfa kaupa sprengiefni. Í stuttu máli þá þurfa þeir stuðning, og sá stuðningur sem þeir þó njóta er að miklu leyti vegna réttmætra krafna og umkvartana múslima í Mið-Austurlöndum. Ísraelsríki heldur áfram sinni píningarstefnu gagnvart Palestínumönnum með dyggum stuðningi Bandaríkjamanna. Umfang þessa stuðnings er gífurlegt og miklu meira en flestir gera sér grein fyrir. Ísrael hefur með miklum tilkostnaði komið sér upp eins konar brynvörðu samfélagi á meðan Palestínumenn búa við stöðuga niðurlægingu og eru nánast réttindalausir. Það er engin spurning að þetta vekur samúð með málstað hryðjuverkamanna meðal múslima. Hið sama má segja um náið samband, stuðning og viðskipti Vesturlanda við stjórnvöld í Sádi-Arabíu, Jórdaníu og Egyptalandi. Svo ekki sé talað um meðferðina á Írak.

Og nú er ég ekki að leggja allt að jöfnu, eins og sagt er. Harmleikurinn í Írak er miklu, miklu meiri heldur en hryðjuverk al-Kaída á Vesturlöndum hafa nokkurn tíma orðið. Það þyrfti nánast sérstaka rannsókn á því hvað mannslíf þar í landi eru léttvæg í hugum ráðamanna hér á landi og á Vesturlöndum. Eins og ég hef áður bent á í útvarpi, þá er ekki einu sinni haldið utan um tölurnar; fallnir írakskir borgarar eru ekki einu sinni tölfræði, hvað þá meir. En líkin hlaupa á hundruðum þúsunda ef allt er talið.

Nei, kæru hlustendur, við skulum ekki setja okkur á of háan hest. Okkar menn drepa líka og ef við afneitum mennsku hryðjuverkamanna afneitum við mennsku okkar sjálfra. Það getur verið nauðsynlegt að grípa til vopna, það er eðlilegt að vilja hefna. Það er hins vegar oftar vænlegra að beita öðrum aðferðum. Við eigum ekki að sá hatri, við eigum ekki að næra hryðjuverkamenn með því að gefa þeim ástæður upp í hendurnar. Innrásin í Írak var réttlæting sem Osama fékk á silfurfati. Hann og hans menn hafa sjálfsagt aldrei notið meiri samúðar.

Maður sannfærir fólk ekki um málstað sinn með því að sprengja það í loft upp.

Vestræn gildi (fást í blóðrauðu eða olíusvörtu)

Góðir hlustendur. Það jafnast ekkert á við ilminn af góðu grilli, nema ef vera skyldi gómsætt bragð af vestrænum gildum. Ég keypti tíu kíló á tilboði, sérstaklega skorin og maríneruð í olíu. Grillaðu úr mér gildin sagði kindin. Og leyfðu öllum heiminum að smakka. Ég vildi að gæti keypt kók handa öllum heiminum að drekka með á jólunum.

Við erum að tala um frelsi til að grilla, frelsi til að tjilla. Frelsi til að trúa ekki á peninga, frelsi til að njóta óspilltrar náttúru. Bull og kjaftæði. Við skuldum náttúrunni ekki neitt, hún reyndi að murka lífið úr þjóðinni í 1100 ár og á ekkert betra skilið en að vera rist í sundur eða étin af sauðfé og seld á uppsprengdu verði á veitingahúsi í Norður-Ameríku. Náttúran er líka ekkert skemmtileg nema það sé sundlaug í flæðarmálinu eða eyðibýli og ekki of langt í næstu bensínstöð.

„Mér er slétt sama“ er líka afstaða hvort sem þér líkar betur eða verr, hlustandi góður, og hún færir þér ekki vægari dóm. Að sjá bjálkann í augum annarra er auðvelt – en að taka bjálka úr eigin auga og tálga úr honum minnismerki um misheppnaðar röksemdafærslur úr eigin fortíð – það er list.

Ég veit ekki hvað ég er að reyna að segja, kannski er ég fyrst og fremst að forðast að segja eitthvað sem orðið gæti til þess að það væri hægt að hanka mig á einhverju atriði, saka mig um ást á hryðjuverkum eða stuðning við heimsvaldastefnu. Einhver gæti reiknað út að siðferði mitt sé ekki á sérlega háu stigi og annar fundið út að í mér renni framsóknarblóð.

Opinber umræða er hættusvæði, maður gæti lent í slagtogi við stjórnmálaforingja eða unglinga sem dreymir um byltingu og trúa ekki á peninga. Ég spyr: Er einhver, í guðsvoluðum bænum, er einhver möguleiki að forðast kviksyndi fyrirframgefinna dóma og fljótræðis? Er einhver tilbúinn að ræða málin með það fyrir markmið að komast ekki að niðurstöðu?

Ég ætlaði að tala um minningar og gleymsku. Ég ætlaði að nefna það sem möguleika að við lærum aldrei af reynslunni. Nánar tiltekið lærum við ekkert af reynslu annarra. Ég var að hugsa um minningar og þá mundi ég allt í einu eftir því að hafa verið ferðamaður í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz fyrir ellefu árum. Og nú fyrst, ellefu árum síðar, verður mér ljós tilviljunin, að sama ár og ég velti fyrir mér boðskapnum aldrei aftur , ástæðu þess að söfn og kennslubækur varðveita glæpi nasista, var framið eitt mesta fjöldamorð sögunnar í Rúanda.

Og það var ekkert óskiljanlegt ættbálkastríð frumstæðra manna, þetta var þaulskipulagt og markvisst. Sendimaður Sameinuðu þjóðanna á staðnum hafði varað við því og skýrslur hans til yfirboðara urðu sífellt örvæntingarfyllri eftir að skíturinn lenti á viftunni, eins og hann orðaði það. Í útvarpinu voru nokkurs konar dánarfregnir og jarðarfarir allan sólarhringinn. Nema það voru ekki auglýstar jarðarfarir og hinir látnu voru enn á lífi þegar nöfn þeirra voru lesin upp. Ég fer ekki lengra út í þessa sögu en viðbrögð Vesturlanda voru sem sagt þau að fljúga með borgara sína heim og draga gæsluliðið til baka. Sjá svo til, og sjá eftir öllu þegar öllu var lokið. Pólitísk áhættustýring fyrir byrjendur. Almenningur tók ekki við sér og ungmenni þreyttu próf í sögu seinni heimsstyrjaldar. Um haustið hóf skemmtiþátturinn Friends göngu sína.

Hvað er ég að meina með þessu? Hvern er ég að ásaka? Hvar er ég að skora stig? Hvern á að kjósa? En kæru, kæru hlustendur, ég er ekki að bjóða mig fram, ég er ekki að mæla með neinu, ég er bara að benda á að við lærum lítið af sögunni og stundum er eins og sagan komi beinlínis í veg fyrir lærdóm. Það er eitt að þekkja staðreyndirnar og annað að draga af þeim ályktanir. Fortíðin er liðin og verður ekki endurtekin á nákvæmlega sama hátt. Þá er hún stundum afmörkuð á söfnum og okkur stranglega bannað að leggja nafn hennar við hégóma. Ekkert er eins voðalegt og helförin gegn gyðingum, segja menn, en gleyma sér svo og sjá Hitler eða Stalín í hverju horni. Sem er nákvæmlega hinn póllinn, að sjá endalausar hliðstæður sem merkja að lokum ekki neitt.

En allir þekkja söguna af Ísrael. Allir vita hvernig ráðandi öfl og stuðningsmenn þeirra þar í landi nýta sér eigin sorgarsögu til að skrifa framhald sem er líka hörmulegt. Ég spái ekki heimsendi – hann mun koma fyrr eða síðar – en ég spái frekari hörmungum í Palestínu, sem er í heild sinni að breytast í einhvers konar fangabúðir. Þar hafa fyrrum fórnarlömb tekið sér hlutverk slátrarans og á einhvern undarlegan hátt hefur sagan umhverfst. En ég ætla ekki að láta hér sem það sé ekki skiljanlegt að íbúar Ísraels vilji verja sig. Það er það, en öryggið er of dýru verði keypt – og þetta vita svo sem margir þar líka. Ef það er einhvern tíma ástæða til að semja við hryðjuverkamenn þá er það í Palestínu. Bretar gerðu það á sínum tíma, þeir gáfust upp á hryðjuverkum síonista, og nú ætti að vera komið að Ísrael. En, ég verð að tilkynna, það mun sennilega ekki gerast og hatrið mun vaxa og vaxa og springa út í strætisvögnum og verslunarmiðstöðvum.

Jæja, jæja, kæru hlustendur, hafið þið náð að flokka mig? Það er auðvelt að standa við grill á Íslandi og lesa herrum heimsins lexíuna. Það er auðvelt að snúa umræðunni sér í hag þegar enginn er til andmæla. Hvað ef ég ljóstra hér upp um fjöldamorð Ingólfs Arnarsonar á frumbyggjum eyjarinnar? Hvað ef söguleg samviska okkar er svört eins og hrafntinna? Það er auðvelt að sitja á steini við Atlantshaf og þusa um syndir annarra.

Af hverju talar hann ekki um R-listann og Orkuveituna eða handónýtt strætókerfi? Hvað með einkavæðingu og bankagjöfina? Ætlar hann að sleppa þeim með álverið? Og ekkert að tala um ömurlega rúnkhneigð ungra listamanna? Hvað með þá staðreynd að úthverfaunglingar Íslands líta helst upp til erlendra eiturlyfjaneytenda með minnimáttarkennd gagnvart konum. Haha, ódýr skot í allar áttir, þetta er eins auðvelt og að grilla gullfiska, að stjórna ríki er eins og að grilla litla fiska, stendur í einni bók, og þar stendur líka: Góður ræðumaður segir ekkert sem að verður fundið, og síðast en ekki síst: Þunginn er rót léttleikans.

Því það sem þessi lestur snýst um er að finna leiðina að léttleikanum og gleðinni en sú leið er snúin, því að í eldhúsum landsmanna er fólk sem veit sínu viti og þekkir harmsögur heimsins. Ég reyni því að fara bakdyraleiðina að hjörtunum og laumast inn um ólæstar bakdyr; nú léttir yfir, nú höldum við áfram, allt fer einhvern veginn að lokum og ekki verra að vera glaður á meðan.

Ég má ekki vera að þessu, ég þarf að fara að taka bensín á bílinn minn, það er búið að bjóða mér í mat um borð í skútu sem var keypt fyrir franskbrauð. Ég þarf að mæta í kaffi og demanta á Bessastöðum og svo ætla ég leika í auglýsingu fyrir Landsbankann og Kókakóla og selja hlutabréf í Microsoft. Allt fyrir frelsið.

Dagskrárlok

Þegar ég var ungur og saklaus og óttaðist að verða einn daginn grillaður í kjarnorkusprengju passaði ég mig á því að lesa helst bara Þjóðviljann. Pabbi keypti öll flokksblöðin sem komu út en ég fékk mig yfirleitt ekki til að lesa Morgunblaðið því ég hræddist kaldastríðsáróður þess. Þetta er persónulegt tilbrigði við gamla kenningu um skoðanir og skoðanamyndun. Hún er þannig að maður passar að lesa bara og hlusta á miðla sem maður veit fyrirfram að eru manni sammála, maður forðast sem sagt að líta í kringum sig, maður vill ekki mengast af vondum skoðunum. Sumir lásu alltaf bara Morgunblaðið og lifðu sig inn í leiðara þess. Þannig fékkst skiljanleg heimsmynd; hún var að vísu svarthvít, en hún var skýr. Og hún var blekking. Því að skýr sýn á tilveruna er alltaf tálsýn, og þessi yfirstaðreynd allra staðreynda fæst skemmtilega staðfest nú í dag, og hvar annars staðar en á netinu.

Því ef það skyldi gerast, hlustandi góður, að þú myndaðir þér skoðun áður en þú lest um hana frá viðurkenndum álitsgjafa, þá ferðu bara á netið og finnur einhverja mikilsmetna sérfræðinga sem eru sammála þér. Þér er óhætt að hafa hvaða skoðun sem er – það er alltaf hægt að finna sérfræðing með doktorspróf sem er sammála. Netið er einn risastór stórmarkaður af skoðunum og álitum viðurkenndra fræðimanna. Blaðamenn og stjórnmálamenn geta skrifað þær hjá sér og lagt á minnið og mætt þungvopnaðir í Kastljósin og veifað sérfræðingum máli sínu til stuðnings.

Og ég segi þetta ekki til að gera lítið úr sérfræðingum, en þetta minnir mig á hvað heimurinn er flókinn og erfiður, og það er enginn sem veit hvernig hann er eða hvað ber að gera. Veröldin er í grundvallaratriðum ófyrirsjáanleg og kannski óskiljanleg, þótt maður sé stöðugt að smíða utan um hana einhverja ramma. Hugurinn krefst þess að ná tökum á tilverunni, sjá hana sem eðlilega framvindu, eitt leiðir af öðru, eftirá að hyggja og svo framvegis. En heimurinn gengur ekki að þessari kröfu, hann neitar að hegða sér, hann smýgur á milli fræðimanna og kemur öllum á óvart.

Samt er ég ekki að leggja allt að jöfnu eða tala fyrir því að enginn sannleikur sé til og allar skoðanir jafn réttháar. Það er ekki það sem ég meina. Ég meina bara að maður ber sjálfur ábyrgð á því hvað maður hugsar, ekki sérfræðingar úti í bæ, og þótt rökin séu mismunandi að styrkleika fæst aldrei endanleg vissa. Sömu staðreyndir geta rúmast í mörgum mismunandi sögum. Þetta er óþægilegt, en gagnlegt að viðurkenna.

En í dag óttast ég ekki kjarnorkugrill, ekki frekar en hryðjuverk, og ég er ekki einu sinni hræddur við verðbólgu og skertan kaupmátt, eða um að fasteignir lækki í verði eða að bensínið hækki. En ég er hræddur við menn sem sjá aldrei spurningarmerki og ég er hræddur við bíla sem aka á móti mér á þjóðvegum landsins. Ég er hræddur um að opinber umræða sé andlega dauð og að ljóðlist hafi lítil áhrif.

Um helgina var veðrið gott og ég var inni að lesa. Á gönguferð minni um miðbæinn í gærkvöldi veltist allt til í höfðinu á mér. Það var eins og hálfmeltar hugsanir rynnu með blóðinu hring eftir hring um líkamann. Ég fann fyrir því í hjartanu og nýrunum. Allt blandaðist saman, fótboltaminningar og minningargreinar um látnar ömmur, rökfræðirit og rafmagnsgítarsóló. Ég lét sem ég væri Þórbergur á leið á vídeóleiguna þar sem ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að taka mynd þar sem Bandaríkjamenn bjarga heiminum undan geimverum eða mynd um rauðvínsdrykkju í Bandaríkjunum.

Göturnar voru fullar af ferðamönnum, það var þokuloft sem minnti mig á gamla daga þegar var ungur og saklaus og lék mér í móanum undir drunum frá kafbátaflugvélum. Ég rýndi í glugga kaffihúsanna og reyndi að koma auga á skáldin en þau hafa sennilega verið heima í fartölvunni að semja ljóðin sín og útvarpspistlana. Ég fór að hugsa um það hvort útvarpspistill væri eins og ferðalag, eins og göngutúr, eða hvort að allt væri eins og ferðalag, eða hvort tilveran hafi orðið ferðalag einhvern tíma upp úr 1920, því ég er ekki viss um að langömmur okkar hefðu samþykkt það að lífið væri einhvers konar ferðalag.

Og leið mín var löng því ég fór á vídeóleigu niðri við sjó, þar sem varnargarðar ganga í Atlantshaf og Snæfellsjökull blasti blóðgaður við. Nei annars, ekki í gær, þá var þoka. En ég gæti verið að ljúga, maður lýgur stundum í útvarpinu, maður verður að búa til sögu, einhvern þráð. Annars verður þetta bara sundurlaust og ósannfærandi, eins og tilveran gæti verið ef maður væri ekki stöðugt að vinna úr henni. Og það kvikna ýmsar hugsanir á göngu út á vídeóleigu, manni finnst eins og maður skilji eitthvað mikilvægt, sérstaklega ef maður starir á hafið eða blóðgaðan jökul. En svo kemur í ljós daginn eftir að maður hefur kannski ekki skilið neitt, maður var bara villtur í þokunni, maður blindaðist af fegurð sólarlagsins eða ruglaðist af fegurð orðanna um sólarlagið eins og þau koma fyrir í ljóðum Stefáns Harðar Grímssonar. Maður er eins og vísindamaður sem var að ganga frá ritgerð til birtingar í virtu tímariti, gengur til hvílu með bros á vör og svífur inn í draumana en hrekkur upp um miðja nótt og finnur að það hefur kviknað á ótal spurningarmerkjum sem lýsa veikt eins og tungl í hundadagsbirtu. Þar er þó komið efni í næstu styrkumsókn og við getum haldið áfram flóttanum frá veruleikanum með því að elta staðreyndirnar, sem virðast bara fjölga sér um leið og þær hverfa hraðar og hraðar út í buskann.

Í sjónum sýnist mér ljóðið mara í hálfu kafi, eins og skynsemin á Vesturlöndum, þar sem lögreglan er farin að skjóta dökkleita menn í úlpum í höfuðið. Mér sýnist óttinn vera við völd í sumum löndum, og það er skiljanlegt en ekki skynsamlegt. Ég las yfir mig af pistlum og leiðurum um helgina, ég var farinn að örvænta, ég gekk næstum því í sjóinn, þegar ég áttaði mig á því að svona hefur þetta alltaf verið. Heimurinn hefur alltaf verið svarthvítur, það er bara sjónvarpið sem er í lit, uppskriftirnar hafa alltaf verið einfaldar þótt okkur takist iðulega að klúðra kökunni. „Minn dálkahöfundur er stærri en þinn,“ sagði ég á skólalóðinni og það var hlegið að mér.

Góðir hlustendur, það er kominn tími til að loka grillinu. Gaskúturinn er tómur og ég kann ekki á gamaldags kolagrill. Ég hef reynt að skemmta hlustendum, ég hef boðið upp á skoðanir sem fást ekki í hverri sjoppu, ég hef logið og ég hef látið sem ég sé gáfaðri en ég er. Mér hefur skilist að útvarpspistlaformið sé farið að snúast meira og meira um sjálft sig, útvarpspistill er alltaf fyrst og fremst um vanda þess að skrifa útvarpspistil, eða jafnvel að útvarpspistill sé eitt stórt ákall um ást og aðdáun, og að það sé farið að vökna í púðrinu. Þá er eins gott að hætta og snúa sér að nafnlausu skítkasti á netinu.